Viðskiptaráð Íslands

Veikari efnahagsbati áhyggjuefni – rætt nánar á Peningamálafundi á föstudaginn

Seðlabanki Íslands lækkaði vexti um 0,75% í gærmorgun sem var í samræmi við spár markaðsaðila. Samhliða vaxtaákvörðuninni voru Peningamál, rit Seðlabankans, gefin út sem innihélt m.a. uppfærða þjóðhagsspá. Seðlabankinn lækkar nú spá sína um hagvöxt á þessu ári úr -1,9% í -2,6% auk þess að draga úr hagvaxtarspá sinni fyrir árið 2011 úr 2,4% í 2,1%. Í yfirlýsingu peningamálastefnunefndar segir jafnframt að „...þróttur innlends efnahagslífs í ár og á næsta ári [verði] heldur minni en Seðlabankinn spáði í ágúst.“

„Vaxtalækkun Seðlabankans er vissulega jákvæð en hinsvegar eru dekkri horfur um bata hagkerfisins verulegt áhyggjuefni,“ segir Björn Þór Arnarson hagfræðingur Viðskiptaráðs. „Þetta eru slæmar fréttir sérstaklega í ljósi þess að í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir 3,2% hagvexti. Veikari horfur um bata hagkerfisins veikir fjárlagafrumvarpið og af þeim sökum eru ein grunnforsenda frumvarpsins að vissu leyti brostin,“ segir hann. „Auk þess gætu horfur um minni hagvöxt hæglega þýtt að þörf sé á enn harðari aðhaldsaðgerðum í fjármálum hins opinbera en hafa verið boðaðar.“

Horfur um minni fjárfestingu
Í nýútgefnum Peningamálum Seðlabankans segir að bati fjárfestingar á næsta ári verði töluvert veikari en gert var ráð fyrir í ágúst vegna minni fjárfestingar í orkufrekum iðnaði. Björn bendir á að aukin fjárfesting sé lykilatriði þegar kemur að endurreisn hagkerfisins og það sé mikið áhyggjuefni  hve veikur bati hennar hefur verið fram til þessa. „Atvinnuvegafjárfesting hefur dregist saman um hart nær 70% frá því skömmu fyrir bankahrun og það er lykilatriði að stórefla hana ef koma á efnahagslífinu af stað sem fyrst. Efla þarf hagkerfið og það verður vart gert án aukinnar fjárfestingar.“

Peningamálafundur: Hvernig metur Seðlabankinn horfurnar?
Í fyrramálið mun Már Guðmundsson seðlabankastjóri halda erindi á árlegum peningamálafundi Viðskiptaráðs Íslands. Í kjölfarið munu fara fram pallborðsumræður þar sem gera má ráð fyrir kröftugum umræðum um stöðu efnahagsmála og framhald gjaldeyrishafta.

Fundurinn ber yfirskriftina Peningastefna í hafti: Flýtur krónan aftur. Skráning á fundinn er í fullum gangi og hægt er að skrá sig og nálgast nánari upplýsingar hér.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024