Undanfarin ár hefur Viðskiptaráð hvatt fyrirtæki til að skila ársreikningum innan tilsettra tímamarka. Skil rekstrarupplýsinga eru auðvitað sjálfsagt mál og í raun sáraeinfalt, en samkvæmt ársreikningalögum ber fyrirtækjum, yfir ákveðnum viðmiðunarmörkum, að skila ársreikningi innan mánaðar frá samþykkt hans eða eigi síðar en átta mánuðum frá lokum reikningsárs. Að því komnu hefur ársreikningaskrá heimild til að leggja á fjársektir fyrir vanskil. Viðurlög vegna vansrækslu skila fyrir tilsett tímamörk ár hvert geta numið fjársekt að upphæð 500.000 kr. Í samanburði við önnur Norðurlönd teljast slík viðurlög væg.
Það ætti hinsvegar alls ekki að þurfa að koma til að fjársektum eða öðrum viðurlögum sé beitt. Ársreikningaskil, innan tilsettra tímamarka, eru mikilvægur hlekkur í upplýsingamiðlun og gagnsæi um heilsufar atvinnulífs. Upplýsingarnar og skilvís skil auka tiltrú á atvinnulífið, bæði hérlendis og erlendis, slípa gangverk viðskipta, lækka viðskiptakostnað og bæta viðskiptakjör. Þetta ættu að vera nægilegir hvatar til þess að forsvarsmenn fyrirtækja tryggi að ársreikningurinn rati á réttan stað, til skatts og ársreikningskrár, á réttum og sama tíma.
Skil ársreikninga hafa farið batnandi síðustu ár, úr 15% fyrir 1. september 2008 (fyrir rekstrarárið 2007) í 22% fyrir 1. september 2012 (fyrir rekstrarárið 2011). Heildarskil á árunum 2007-2011 hafa svo verið ríflega 80%, þó nokkru eftir að tímafrestir eru liðnir. Þegar þessi orð eru skrifuð eru skrifuð (4. október) hafa 33% íslenskra fyrirtækja skilað ársreikningi fyrir rekstrarárið 2011. Skil félaga í Viðskiptaráði Íslands eru nokkuð betri, en rúmlega helmingur (54%) hefur nú skilað ársreikningi fyrir síðasta ár. Í stjórn og varastjórn VÍ (sem telur 38 félög) eru skilin 76%. Þó svo þróunin sé nú í rétta átt þá má betur, ef duga skal, þar sem eitthvað á annan tug þúsunda fyrirtækja (af ríflega 30.000 skráðum) á nú eftir að skila ársreikningi fyrir rekstrarárið 2011.
Það er huggun harmi gegn að það er afar auðvelt fyrir forsvarsmenn fyrirtækjanna að kippa þessu í liðinn. Tæpast þarf meira en einn tölvupóst eða símtal til endurskoðanda og málið er afgreitt innan dags.
Væri ekki ágætt síðasta verkefni þessarar vinnuviku að hringja það símtal eða senda tölvupóstinn?
Svo er sjálfsagt að gera slíkt hið sama að ári, og um leið koma í veg fyrir að skrifa þurfi fleiri nöldurpistla um jafn sjálfsagðan hlut og skil fyrirtækja á ársreikningum eru.
Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands