Hentistefna eða atvinnustefna?

Umræðan undanfarnar vikur af hálfu forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar í málefnum HS Orku hefur verið einkennileg, svo ekki sé meira sagt. Í stað þess að fara að niðurstöðu lögskipaðrar nefndar er taldi eignarhaldið samræmast íslenskri löggjöf, sem var síðar staðfest af annarri nefnd, þá virðist stefnan sett á að hundsa löggjöf um erlenda fjárfestingu og aðra lagalega umgjörð orkuiðnaðarins. Nú er svo komið að jafnvel er rætt um eignarnám í þessu samhengi.

Það er eðlilegt að skiptar skoðanir séu innan samfélagsins á málum sem þessum. Málefnaleg skoðanaskipti eru af hinu góða og er það virðingarvert að aðilar láti heyra í sér og veiti þannig stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald. Stjórnvöld þurfa hins vegar að fara að lögum í allri sinni ákvarðanatöku, en vilji til þess virðist ekki alltaf vera fyrir hendi þegar málefni atvinnulífsins eru annars vegar.

Grunnstoðirnar í óvissu
Því miður teygja þessi vinnubrögð stjórnvalda í atvinnumálum anga sína yfir aðra grunnstoð efnahagslífsins, t.d. sjávarútveginn. Sá atvinnuvegur hefur að miklu leyti verið í óvissuástandi vegna orða og athafna stjórnvalda, þrátt fyrir að sameiginlegur starfshópur allra hagsmunaaðila hafi sammælst um að styðjast áfram við núverandi aflamarkskerfi við stjórn fiskveiða. Hugsanlegar breytingar á kerfinu virðast því ekki snúa að uppbyggingu þess heldur öðru fremur að því að leiðrétta tilteknar ákvarðanir sem teknar voru þegar kvótanum var úthlutað upphaflega fyrir tæpum 3. áratugum.

Til að svo megi verða þarf hins vegar að skerða hagsmuni þeirra sem fylgt hafa reglum kerfisins fram til þessa og hafa jafnvel lítið með uppruna þess að gera. Aðgerðir stjórnvalda virðast því taka fremur mið af tilfinningasemi eldri kynslóða en hagkvæmni kerfisins og þar með hagsmunum komandi kynslóða.

Löggjöf til trafala
Hagkvæmni virðist heldur ekki vera aðaláherslan í málefnum orkugeirans, né heldur íslensk löggjöf. Vegna þessa hefur Umboðsmaður Alþingis, eins og kom nýlega fram í fjölmiðlum, gagnrýnt stjórnvöld fyrir ætlun sína að eyðileggja lögmæt viðskipti um eignarhald á HS Orku. Þetta yrði ekki í fyrsta skipti sem starfshættir stjórnvalda á sviði atvinnumála fela í sér, með einum eða öðrum hætti, að stjórnsýslulög og stjórnsýsluhættir hafi verið beygðir. Þar vísast einna helst til meðferðar umhverfisráðherra á málefnum Suðvesturlínu árið 2009, þegar lögbundnir tímafrestir voru virtir að vettugi.

Vegna þess hvernig komið er fyrir þessu máli er ríkt tilefni til að velta upp því fordæmi sem stjórnvöld skapa með því að hunsa lög og reglur. Á síðustu misserum hefur stór hluti íslensks atvinnulífs legið undir ámæli fyrir að hafa ekki farið að ýmsum lögum í starfsemi sinni. Gjarnan hefur viðkvæðið verið að lög hafi verið túlkuð með of bókstaflegum eða tæknilegum hætti, í stað þess að anda þeirra sé fylgt. Stjórnvöld virðast ekki ætla að vera öðrum góð fyrirmynd hvað þetta varðar, nema það að fylgja anda laga feli í sér að þeim sé breytt eftir því sem hentar hverju sinni.

Eins og komið er inn á í ofangreindu áliti Umboðsmanns þá er mikilvægt að hafa í huga að einstaklingar og lögaðilar verða að geta gengið út frá því að yfirvöld afgreiði mál þeirra í samræmi við lög. Ljóst má vera að stjórnvöld draga verulega úr þeirri vissu, ekki bara á sviði orkumála heldur öllum sviðum, með því að ganga fram með þessum hætti.

Áhrif á fjárfesta
Í máli forsvarsmanna stjórnvalda hefur komið fram að staða málsins og hugsanlegt eignarnám muni ekki hafa áhrif á erlenda fjárfestingu hérlendis. Þvert á móti þá á nægur áhugi að vera til staðar á Íslandi. Það er von Viðskiptaráðs að þessi málflutningur eigi við rök að styðjast enda rík þörf á erlendri fjárfestingu hingað til lands, eigi hagvöxtur að standast spár og lífskjör að batna.

Það er hins vegar ástæða til að undirstrika að stjórnvöld hafa ekki með neinum hætti rökstutt þessar fullyrðingar sínar. Ef rýnt er í tölurnar má hins vegar sjá að fjárfesting atvinnulífs hefur verið í algjöru lágmarki undanfarin 2 ár. Þá hafa bjartsýnisspár stjórnvalda um vöxt hagkerfisins tekið breytingum til hins verra síðustu vikur og mánuði. Er jafnvel rætt um að hagvöxtur verði um hálft prósent á þessu ári. Það er því ekkert í kortunum sem bendir til að raðir af fjárfestum bíði eftir að komast hingað til lands með þekkingu sína og fjármagn.

Ríkisrekið atvinnulíf
Unnt er að nefna fleiri dæmi en orkuiðnaðinn og sjávarútveginn þegar horft er yfir stefnu stjórnvalda í atvinnuuppbyggingu. Umræðan um Lyfjaverslun ríkisins hefur t.a.m. reglulega komið upp undanfarin misseri. Þá er ætlunin að opna fyrir opinber innkaup í gegnum systurstofnun Ríkiskaupa í Evrópu. Verði af því getur ríkið keypt beint hvers kyns vörur og þjónustu utan landsteinanna hvort heldur lyf, bíla eða kaffi. Er þetta ekki ósvipað fyrirkomulag og var uppi snemma á síðustu öld þegar Landsverslun Íslands var starfsrækt, en sú verslun keypti nauðsynjavörur fyrir Íslendinga frá Danmörku.

Verði haldið áfram á þessari braut má ætla að stór hluti atvinnulífsins verði rekin af ríkinu á komandi árum. Ef það er vilji stjórnvalda að svo verði, m.a. með því að færa samkeppnisrekstur undir hatt ríkisins, þá má allt eins spyrja um ástæður þess að láta staðar numið við orkuiðnaðinn. Samkvæmt lögum fer ríkið t.a.m. með forræði sjávarauðlinda og með sömu röksemdarfærslu er ekki úr vegi að það taki að sér skiparekstur. Ríkið er jafnframt stærsti landeigandinn og ætti því skv. þessari stefnu að eiga og reka rútufyrirtæki, ferðaskrifstofur og flugfélög. Að lokum þá eru vegir landsins í eigu hins opinbera og á þeim byggja alls kyns fyrirtæki atvinnu sína, t.a.m. leigubílar og flutningabílar.

Allt eru þetta dæmi um verðmætaskapandi samkeppnisrekstur sem veita þúsundum Íslendinga vinnu á degi hverjum. Þó skiptar skoðanir séu uppi um hvar eignarhaldið á auðlindum eigi að liggja, sem er nú hjá ríkinu, mætti ætla að fæstir hefðu áhuga á að þessir þættir atvinnulífsins séu jafnframt undir forsjá ríkisins. En hvar á að draga línuna í sandinn? Afstaða Viðskiptaráðs í þeim efnum er skýr, ríkið á ekki að standa í samkeppnisrekstri hvað nafni sem hann nefnist.

Nú er mál að linni
Eins og áður segir þá eru málefnaleg skoðanaskipti eru af hinu góða. Þá er eðlilegt að stjórnvöld vilji hverju sinni færa stefnu sína til framkvæmdar, sem getur kallað á ákveðnar breytingar á högum einstaklinga og fyrirtækja. Lögin eru hins vegar skýr og þau eiga að setja stjórnvöldum skorður, það er grundvöllur lögmætisreglunnar. Að sama skapi er alveg skýrt að verðmætasköpunin á sér stað innan atvinnulífsins. Með því að færa stóra hluta þess undir forsjá ríkisins, halda öðrum atvinnugreinum í óvissuástandi eða skattleggja úr hófi er dregið úr verðmætasköpun og þar með vonum um góð lífskjör.

Tengt efni

Má aðstoða hið opinbera? 

„Á meðan einkageirinn leiðir framleiðniaukninguna bendir ýmislegt til þess að ...
4. mar 2024

Fjaðramegn ræður flugi

Góð skattkerfi byggja á fyrirsjáanleika. Stöðugleiki skiptir miklu máli þegar ...
28. nóv 2022

Ríkið kyndir undir verðbólgu

Leiðrétt fyrir stöðu hagsveiflunnar eru ríkisfjármálin að styðja svipað mikið ...
13. des 2021