Með hliðsjón af aðstæðum á vinnumarkaði þarf ekki að undrast að ásókn í háskólanám skuli hafa aukist til muna nú um áramót. Þrátt fyrir að rekstur hins opinbera standi höllum fæti og mikilvægt sé að sýna aðhald á öllum sviðum telur Viðskiptaráð ekki skynsamlegt að takmarka þann fjölda sem boðið verði að stunda háskólanám á næsta ári.
Fyrir því eru einkum tvær ástæður. Annars vegar er afar mikilvægt að verja og efla þann mannauð sem til staðar er til að langtímaáhrif efnahagslægðarinnar verði sem minnst. Hins vegar er ekki fyrirséð að takmörkun á nemendafjölda við háskólanám leiði til sparnaðar í útgjöldum hins opinbera. Þeir aðilar sem hafa sótt um háskólanám eru flestir án atvinnu og hafa ákveðið að nýta tækifærið og afla sér frekari menntunar. Ef þessum aðilum verður ekki gert kleift að stunda nám er líklegt að stór hluti þeirra muni annað hvort hverfa af landi brott eða þiggja atvinnuleysisbætur. Ef borinn er saman kostnaður vegna atvinnuleysisbóta og háskólanáms er ljóst að ábati þess að einstaklingur þiggi atvinnuleysisbætur í stað þess að stunda háskólanám er lítill, ef einhver.
Með það í huga hvetur Viðskiptaráð stjórnvöld til þess að grípa til nauðsynlegra ráðstafana þannig að öllum verði gert kleift að stunda háskólanám meðan aðstæður á vinnumarkaði eru jafn erfiðar og raun ber vitni.