Viðskiptaráð Íslands

Menntun og hagvöxtur

Friðrik Már BaldurssonÁrið 1960 var landsframleiðsla á hvern íbúa í Finnlandi um 2/3 af því sem var á Nýja Sjálandi. Fjörutíu árum síðar höfðu hlutirnir snúist við: Tekjur á mann í Finnlandi höfðu þrefaldast og voru um fjórðungi meiri en á Nýja Sjálandi. Þær höfðu aukist um rúm 60%; árlegur hagvöxtur á mann í Finnlandi var að jafnaði 3% árin 1960-2000 en aðeins 1,2% á Nýja Sjálandi. Þetta undirstrikar þá staðreynd að hagvöxtur til lengri tíma er undirstaða að hagsæld og efnahagslegum lífskjörum þjóða; það er því afar mikilvægt rannsóknarefni í hagfræði að grafast fyrir um orsakaþætti hagvaxtar.

Það sem hefur helst getað skýrt það hvers vegna hagvöxtur er svo misjafn milli landa eru atriði sem varða undirstöður efnahagslífsins – samfélagslegir innviðir á borð við vernd eignaréttar og frelsi í viðskiptum. Slík atriði geta skýrt mun á hagvexti í ýmsum þróunarríkjum og iðnríkjunum (OECD). Það hefur hins vegar reynst erfiðara að finna ástæður þess hvers vegna hagvöxtur getur verið svo misjafn sem raun ber vitni innan hóps iðnríkja þar sem grundvallaratriði sem þessi eru yfirleitt í góðu horfi. Ný rannsókn tveggja þýskra fræðimanna  leiðir í ljós að menntun skiptir þarna höfuðmáli. Það kemur í ljós að sterkt samband er á milli hagvaxtar og árangurs í samræmdum alþjóðlegum prófum í stærðfræði, raungreinum og lestri sem lögð eru fyrir grunnskólanema. Fáar breytur aðrar virðast skipta miklu máli.

Ekki er rétt að taka þessar niðurstöður of bókstaflega – það er ólíklegt að það myndi skila miklum árangri að ná góðum árangri á samræmdum alþjóðlegum prófum ef aðrir samfélagslegir innviðir væru í ólestri. Það má miklu fremur álykta sem svo að þessi mælikvarði nái að endurspegla marga aðra þætti, efnahagslega, menntunarlega og menningarlega, sem styðja við hagsæld og sé jafnframt samofinn slíkum þáttum. Ólíklegt er að lönd nái góðum árangri á þeim alþjóðlegu prófum sem um ræðir nema að samfélagslegir inniviðir séu traustir og að vel sé gert á mörgum öðrum sviðum, þar með talið í menntun á framhalds- og háskólastigi.

Íslendingar hafa í gegnum tíðina verið nálægt meðaltali OECD ríkjanna í samræmdum alþjóðlegum prófum. Grunnskólar sem skiluðu betri árangri myndu því skila miklum efnahagslegum ávinningi hér á landi – fyrir utan þann menningarlega. En hvaða stefna í skólamálum er líkleg til að skila árangri? Við þessari spurningu er ekki til einfalt svar. Til dæmis er ekki marktækt samband milli þeirra fjármuna sem lönd verja til grunnskóla og árangurs á alþjóðlegum prófum – Ísland er eitt skýrasta dæmið um það. Rannsóknir benda hins vegar til þess að lykillinn að betri árangri séu sterkari hvatar fyrir þá sem starfa í kerfinu til að standa sig betur. Þrjú atriði standa uppúr: Aukin samkeppni, aukið frelsi til ákvarðana hjá einstökum skólum, og að þeir sem starfa innan skólakerfisins og gera vel uppskeri í samræmi við það.

Friðrik Már Baldursson, Háskólinn í Reykjavík


VÞ skýrslaÞessi grein er ein aðsendra greina í skýrslu Viðskiptaráðs Íslands til árlegs Viðskiptaþings. Skýrslan í ár ber heitið Tökumst á við tækifærin - atvinnulíf til athafna.

PDF útgáfu skýrslunnar má nálgast hér.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024