Viðskiptaráð Íslands

Skattaskýrsla AGS: Jákvætt innlegg í umræðuna

Á fimmtudaginn síðasta, daginn fyrir þjóðhátíðardag Íslendinga, var ný skýrsla skattahóps AGS birt á vefsíðu fjármálaráðuneytisins. Er þetta önnur skýrslan af tveimur þar sem AGS fjallar um skattkerfið hérlendis og leggur til margvíslegar tillögur að breytingum. Sú fyrri kom út í júní 2010 og má nálgast hér.

Í nýju skýrslunni beinir sjóðurinn spjótum sínum sérstaklega að skattlagningu auðlindanýtingar, en jafnframt má þar finna tillögur um breytingar á skattkerfi atvinnulífs og einstaklinga. Heilt yfir er um að ræða greinargott yfirlit á íslenska skattkerfinu, en meðal tillagna sjóðsins sem snúa að atvinnulífinu eru að:

  • tímabundnar ráðstafanir til að undanþiggja fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja skattlagningu verði framlengdar og útvíkkaðar til að taka til tilvika þar sem skuldum er breytt í eigið fé
  • taka eigi fyrir frádráttarbærni vaxta í þeim tilvikum þar sem lánadrottinn er í lágskattaríki
  • taka eigi upp reglur um magra eiginfjármögnun (e. thin capitalization)
  • afdráttarskattur á vaxtagreiðslur til erlendra aðila verði lækkaður úr 20% í 10% til að draga úr byrði íslenskra fyrirtækja, sem gjarnan bera skattinn í stað hins erlenda lánveitanda
  • skilyrði um 10% lágmarkseignarhald til að njóta frádráttarbærni arðs verði fellt brott og þess í stað verði 95% móttekins arðs undanþegin skattlagningu líkt og reglur kveða á um í Evrópu
  • nýlegum lögum um undanþágu tiltekinna erlendra fjárfestinga frá sköttum og gjöldum verði leyft að renna sitt skeið og þess í stað verði slíkir hvatar felldir inn í almenna skattalöggjöf
  • skipta þurfi út reglum um launaskattlagningu arðs fyrir önnur viðmið, enda séu þær handahófskenndar og brengli skattlagningu mismunandi félagaforma. Í það minnsta þarf að skýra þær talsvert og sömuleiðis þarf að uppfæra reglur um reiknað endurgjald.

Ljóst má vera að skiptar skoðanir verða um einstakar tillögur sjóðsins. Engu að síður er skýrslan, líkt og sú fyrri, mikilvægt innlegg í skattaumfjöllunina hérlendis - sem gjarnan einkennist af einföldunum og upphrópunum um skattlagningu fyrirtækja og fjárfestinga. Tillögur sjóðsins þarf því að ígrunda vel á næstu vikum og mánuðum.

Viðskiptaráð hefur fyrir sitt leyti skoðað og lagt fram tillögur um marga þá þætti sem AGS hefur farið yfir í sínum skýrslum, m.a. í skýrslum ráðsins Útþensla hins opinbera frá árinu 2008, Fjármál hins opinbera frá desember 2009 og Skattkerfi atvinnulífsins frá því í september 2010 sem og í skoðunum ráðsins, en þær má nálgast hér.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024