Frá hausti 2008 hafa íslensk fyrirtæki, inn- og útflytjendur, lent í allnokkrum vandræðum með viðskiptalánatryggingar. Stærstu erlendu greiðslutryggingarfélögin, Atradius og Euler Hermes, hafa ekki verið reiðubúin til að gangast í ábyrgðir fyrir greiðslur frá íslenskum félögum sem hafa því neyðst til að greiða vörusendingar fyrirfram eða útvega aðrar kostnaðarsamar greiðslutryggingar á borð við bankaábyrgðir. Þetta hefur aukið kostnað í vöruviðskiptum og haft neikvæð áhrif á framboð, vöruúrval og verð til viðskiptavina.
Viðskiptaráð hefur í samstarfi við Creditinfo, íslenska banka og tryggingarfélög unnið að því að koma aftur á eðlilegu fyrirkomulagi greiðslufallstrygginga. Þetta hefur verið gert með því að upplýsa erlendu greiðslutryggingarfélögin reglulega um stöðu og gang endurreisnar íslensks efnahagskerfis og með því að leggja áherslu á aukið gagnsæi atvinnulífs og bætt aðgengi að áreiðanlegum upplýsingum um rekstur íslenskra fyrirtækja.
Það er til marks um aukið traust á íslensku efnahagslífi að erlend greiðslutryggingarfélög eru á ný byrjuð að tryggja greiðslur frá íslenskum aðilum. Sérstaklega er mikilvægt að Atradius, annað af tveimur stærstu greiðslutryggingarfélögum heims, hefur nú opnað fyrir tryggingar á íslensk fyrirtæki. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjóvá (Sjá að neðan), sem er umboðsaðili Atradius á Íslandi. Eins og eðlilegt er munu ákvarðanir Atradius um tryggingar byggja á greiningu á stöðu viðkomandi fyrirtækis. Því er ástæða til árétta mikilvægi þess að fyrirtæki standi skil á ársreikningum til Creditinfo og Ársreikningaskrár, eins og lög gera reyndar ráð fyrir.
Frá árinu 2008 hefur mikil bragarbót hefur verið gerð ársreikningaskilum íslenskra fyrirtækja auk þess sem dregið hefur úr almennri óvissu um stöðu og horfur hagkerfisins. Hvoru tveggja á eflaust þátt í breyttri afstöðu Atradius til trygginga sem tengjast íslenskum fyrirtækjum. Þessi breytta afstaða markar ákveðin tímamót fyrir íslenskt atvinnulíf og er stórt skref í að koma vöruviðskiptum á milli Íslands og annara landa í ásættanlegt horf, fyrirtækjum og neytendum til góða.
Tengt efni:
Tilkynning frá Sjóvá (Sjóvá-Almennar tryggingar hf.):
Nýverið fengum við tilkynningu þess efnis frá ATRADIUS, endurtryggjanda okkar í viðskiptalánatryggingum, að vilji sé nú til þess að veita að nýju lánshámörk á íslenska kaupendur vöru og þjónustu en frá haustinu 2008 höfum við ekki getað veitt viðskiptavinum okkar þessa þjónustu af ástæðu sem við öll þekkjum.
Allt frá árinu 1996 hefur SJÓVÁ boðið viðskiptalánatryggingar með stuðningi endurtryggjandans ATRADIUS. Á þessum tíma hafa fjölmargir viðskiptavinir félagsins keypt slíkar vátryggingar sem auðveldað hafa markaðs- og sölustarfsemi þeirra þar sem vörur og þjónusta eru afhent út í reikning að undangengnu áhættumati á kaupendunum.
Flestir viðskiptavina með viðskiptalánatryggingu starfa í greinum er tengjast sjávarútvegi, ýmist í útgerð, fiskverkun eða afurðasölu. Í efnahagshruninu haustið 2008 varð ógerningur að gefa út lánshámörk á íslenska kaupendur, hvort heldur seljandinn var íslenskt eða erlent fyrirtæki. Af þessu leiddi mikið óhagræði fyrir íslenska innflytjendur eins og kunnugt er.
Undanfarin misseri höfum við hjá SJÓVÁ unnið markvisst að því að koma málum í fyrra horf. Þessi tilkynning markar því tímamót og er vissulega gleðileg að okkar mati. Eftir sem áður munu hinir vátryggðu kaupendur undirgangast nákvæmt áhættumat hjá ATRADIUS þar sem ársreikningar þeirra fyrir árið 2010 verða lagðir til grundvallar ásamt upplýsingum úr gagnabanka ATRADIUS.“