Í morgun stóðu Viðskiptaráð Íslands og millilandaráðin fyrir fundi um stöðuna á samningaviðræðum Íslands við ESB. Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands í samningaviðræðunum, og Kolbeinn Árnason, formaður samningshóps um sjávarútveg, héldu erindi þar sem farið var yfir stöðu mála. Í lok erinda voru umræður þar sem nánar var fjallað um einstök atriði og eins og gefur að skilja vógu sjávarútvegsmál þungt í þeim umræðum.
Í erindi sínu fór Stefán yfir helstu þætti viðræðna, ferli þeirra og stöðuna í dag. Kom fram að viðræðurnar hefðu gengið óvenju hratt fyrir sig, enda er þekking Íslendinga mikil á regluverki Evrópusambandsins í ljósi samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Með þessu áframhaldi gæti viðræðunum verið lokið á næstu tveimur til þremur árum, en þó er mikilvægt að leggja áherslu á gæði viðræðna en ekki hraða þeirra.
Í máli sínu fór Stefán stuttlega yfir þá kafla sem hafa verið opnaðir og eiga eftir að vera opnaðir. Flestir af þeim köflum sem um ræðir eru þegar hluti af EES samningnum í heild eða hluta og munu því ekki vera mikið deilumál. Hins vegar er ljóst að það eru nokkrir kaflar sem munu vera ærið verkefni og það eru þá helst kaflarnir um sjávarútveg og landbúnað.
Í erindi sínu fór Kolbeinn yfir sjávarútvegsstefnu og kerfi ESB, samanburð við Ísland, sérstöðu landsins og helstu áherslur og fyrirvara Íslands í viðræðunum. Sameiginleg sjávarútvegsstefna sambandsins er að fullu á valdi þess hvort sem litið er til lagasetningar og regluverks eða til heildarafla, aflahlutdeildar eða sóknarmarka. Ákvarðanir í þessum efnum eru teknar af stofnunum sambandsins, sem eru þó bundnar af reglum um hlutfallslegan stöðugleika. Það eru einmitt þær reglur sem eru mikilvægar þegar kemur að viðræðum Íslands, enda sérstaðan landsins mikil þegar kemur að legu og efnahagslegu mikilvægi sjávarafurða fyrir landið. Enn er langt í land með að aðilar nái saman í þessum efnum en ljóst er þó að ESB horfir mjög til þess kerfis sem er hér á landi við smíð á nýju regluverki og telur að draga megi mikinn lærdóm af því góða sem hér hefur verið gert.
Hér má finna slæður frá fundinum:
Stefán Haukur Jóhannesson - Staða viðræðna
Kolbeinn Árnason - Sameiginleg sjávarútvegsstefna
Upplýsingaveita um Evrópusambandið og Evrópumál - Háskóli Íslands og Alþingi