Viðskiptaráð Íslands

Hvers virði er samkeppnisforskot?

Þessi grein birtist í skýrslu Viðskiptaráðs Íslands til árlegs Viðskiptaþings. Skýrslan í ár ber heitið Hvers virði er atvinnulíf?, en pdf útgáfu hennar má nálgast hér.


Við Íslendingar trúum því að fiskurinn okkar sé sá besti í heimi og í mörgum tilfellum er það satt.

Ísland hefur lengi verið fyrirmynd samkeppnisþjóða í því hvernig haga skuli fiskveiðum og vinnslu. Þetta forskot gerði okkur auðveldara fyrir á mörkuðum enda vorum við oft með betri gæði og meira afhendingaröryggi en flestar samkeppnisþjóðir. Athygli greinarinnar hér á landi síðustu ár hefur hins vegar farið nær eingöngu í innra karp um hvernig dreifa skuli framtíðararði og um stjórnun fiskveiða. Á meðan Ísland hefur verið í þessari biðstöðu hafa keppinautar okkar færst nær um hylli neytenda. Nú
er svo komið að mörg samkeppnislönd okkar eru komin óþægilega nálægt okkur eða jafnvel fram úrokkur á ákveðnum mörkuðum.

Þessi staða var ekki ósvipuð hjá bandarískum bílaframleiðendum á sjötta og sjöunda áratugnum. Þeir áttu markaðinn, voru með flotta bensínháka sem alla dreymdi um að eignast. Þegar Japanir byrjuðu að kynna litla sparneytna bíla höfðu Bandaríkjamenn ekki miklar áhyggjur, þeir voru ósigrandi. Eftir tvær olíukreppur breyttist viðhorf viðskiptavinarins, það skipti hann máli hvort bílinn var hagkvæmur í rekstri og litlu „ljótu“ japönsku bílarnir komust í tísku. Bandarískir bílaframleiðendur sáu þessa þróun seint og illa og neituðu flestir lengi vel að horfast í augu við hana. Nú er staðan sú að bandarískir bílaframleiðendur hafa tapað forystuhlutverki sínu varðandi framleiðslu og tækninýjungar. Þeir eru í dag þriðji stærsti bílaframleiðandi heims á eftir Kína og Japan.

Ein þjóð, Þýskaland, hefur staðið framar öðrum í framleiðslu gæða- og lúxusbíla og hefur haldið sinni sterku stöðu síðustu áratugi þrátt fyrir erfitt samkeppnisumhverfi og háan launakostnað. Flestar aðrar þjóðir í svipaðri stöðu hafa átt mjög erfitt uppdráttar eins og vörumerkin Volvo, Saab og Rover eru til vitnis um. Þetta kom ekki að sjálfu hjá Þjóðverjum, þeir ákváðu sem þjóð að vera leiðandi í tækninýjungum, gæðum, áreiðanleika og viðhalda stöðu sinni sem besti bílaframleiðandi í heimi.

Ísland getur valið að fara leið þýskra bílaframleiðenda í markaðssetningu á íslenskum fiski. Til þess þarf að eiga sér stað ákveðin viðhorfsbreyting á Íslandi. Í fyrsta lagi þurfum við að viðurkenna að kröfuharðir neytendur úti í heimi eru ekki endilega að kalla eftir íslenskum fiski, heldur heilnæmum fiski sem mætir kröfum þeirra um bragðgæði, ábyrga meðhöndlun og áreiðanleika. Í öðru lagi þurfum við að viðurkenna að það ríkir geysihörð samkeppni á öllum mörkuðum og sérstaða íslensks fisks fer minnkandi. Til að bregðast við því þarf að stunda kröftuga vöruþróun og markaðssetningu á íslenskum uppruna og íslenskum afurðum. Í þriðja lagi þurfum við að viðurkenna að það fylgir því kostnaður að búa til og viðhalda stöðu íslensks fisks sem þess besta í hugum neytandans. Samkeppnislönd okkar, t.d. Noregur og Bandaríkin (Alaska), veita milljörðum króna á ári hverju í sameiginlega markaðssetningu sjávarútvegsgeirans á sínum uppruna. Ísland fjárfestir í dag sáralítið í sameiginlegri markaðssetningu íslensks fisks.

Íslenskur fiskur hefur enn sérstöðu á mörgum mikilvægustu mörkuðum heims. Við þurfum að nota hugmyndaflug, fjármagn og samstöðu til að viðhalda og auka þessa sérstöðu. Þannig hámörkum við arðsemi Íslands af auðlindum sjávar.

Helgi Anton Eiríksson, Iceland Seafood International

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024