Viðskiptaráð Íslands

Peningamálafundur Viðskiptaráðs: Ísland ekki í skuldavanda

Í morgun fór fram árlegur peningamálafundur Viðskiptaráðs Íslands á Hilton Reykjavík Nordica. Aðalræðumaður fundarins var Már Guðmundsson seðlabankastjóri og ræddi hann um skuldastöðu þjóðarbúsins, peningastefnuna, fjármagnshöftin og valkosti Íslands í gjaldmiðlamálum. Ræðu hans á fundinum má nálgast hér og glærur hér.

Hreggviður Jónsson formaður Viðskiptaráðs opnaði fundinn og kom inn á nýlega ályktun stjórnar ráðsins um mikilvægi þess að halda öllum kostum í gjaldmiðilsmálum opnum. Í lok fundar tóku við pallborðsumræður undir stjórn Ásgeirs Jónssonar lektors við Hagfræðideild Háskóla Íslands.

Skuldir viðráðanlegar og hagvöxtur hár
Í erindi Más kom m.a. fram að Seðlabankinn telji að skuldastaða þjóðarbúsins, sem sé líklega á bilinu hálf til ein þjóðarframleiðsla, sé vel viðráðanleg. Helsta viðfangsefnið í dag sé hins vegar að bæta greiðslujöfnuð þjóðarbúsins, til dæmis með því að lengja í útistandandi lánum sem falla á gjalddaga innan skamms og draga úr lausum krónueignum erlendra aðila sem þrýsta á gengi krónunnar.

Hann ræddi einnig spá Seðlabankans um að hagvöxtur hérlendis verði um 2,5% í ár og á næsta ári. Þetta sé góður hagvöxtur samanborið við önnur ríki og að þessi hagvöxtur byggi á breiðum undirstöðum útflutnings, einkaneyslu og fjárfestingu. Ennfremur spái Seðlabankinn hækkandi hagvexti svo langt sem spár bankans ná, eða út árið 2015. Efnahagsbatinn sé því ósvikinn, umtalsverður og byggir á breiðum grunni.

Aflandskrónum fækkar - val um krónu eða evru
Már fór yfir útistandandi magn aflandskróna, sem stendur í um 400 ma.kr. í dag, en sú upphæð hefur lækkað um 170 ma.kr. undanfarin þrjú ár vegna ýmissa aðgerða Seðlabankans. Þetta færi hagkerfið skrefi nær afnámi gjaldeyrishafta.

Til lengri tíma litið hefðu Íslendingar síðan tvo valkosti í gjaldmiðilsmálum: krónu eða evru. Í millitíðinni ætti að búa krónunni betri ramma eftir því sem afnámsáætlun miðar fram, því slíkar umbætur gagnast einnig ef ákveðið verður að taka upp evru.

Engir nauðasamningar án samþykkis Seðlabankans
Í fyrirspurnarhluta erindis síns tók Már fram að nauðsamningar þrotabúanna verði einungis að raunveruleika með samþykki Seðlabankans. Skilyrði fyrir því samþykki sé að uppgjör hvers og eins þrotabús raski ekki fjármálastöðugleika eða skili sér í neikvæðum greiðslujöfnuði. Nú standi yfir viðræður um slík samkomulög en þær séu hins vegar umfangsmiklar og þurfi að taka sinn tíma.

Hér að neðan má nálgast myndir frá fundinum í flickr myndasafni Viðskiptaráðs:


Tengt efni í fjölmiðlum:

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024