Viðskiptaráð Íslands

Gera má betur í regluverki erlendra fjárfestinga

Logo HRMánudaginn 18. nóvember síðastliðinn fór fram ráðstefna í Háskólanum í Reykjavík um regluverk erlendra fjárfestinga hérlendis. Að ráðstefnunni stóðu HR, Viðskiptaráð Íslands, JURIS lögmansstofa og LEX lögmannsstofa.

Auk Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tóku til máls Dr. Bjarni Már Magnússon, Dr. Finnur Magnússon, Garðar Víðir Gunnarsson, Ólafur Sigurðsson og Þórður Reynisson, en Dr. Guðmundur Sigurðsson deildarforseti lagadeildar HR setti ráðstefnuna.

Á ráðstefnunni var annars vegar fjallað um mikilvægi fjárfestaverndar á grundvelli milliríkjasamninga, svokallaðra gagnkvæmra samninga um vernd fjárfestinga. Hins vegar var farið yfir stöðu Íslands í þessu samhengi og ferli við gerð sértækra fjárfestingarsamninga við einstaka erlenda fjárfesta.

Hvað varðar fyrri þáttinn þá var m.a. farið yfir markmið og tilgang fjárfestingarsamninga sem er að auka fjárfestingar milli landa og tryggja réttindi fjárfesta. Sérkenni slíkra samninga eru tvenns konar, þ.e. þeir hafa annars vegar að geyma meginreglur um vernd fjárfesta og fjárfestinga og hins vegar ákvæði um úrlausn deilumála fyrir alþjóðlegum gerðardómum.

Unnið að fjölgun fjárfestingasamninga
Fram til þessa hefur Ísland aðeins gert níu tvíhliða fjárfestingarsamninga við önnur ríki. Utanríkisráðuneytið vinnur nú hins vegar samkvæmt þingsályktunartillögu um fjölgun slíkra samninga og hefur Viðskiptaráð m.a. aðstoðað í þeim efnum. Sú vinna á sér jafnframt hliðstæðu í stjórnarsáttmálanum.

Miklu skiptir að þeirri vinnu verði hraðað eins og kostur er enda umtalsverðir hagsmunir af aukinni fjárfestingu hingað til lands sem og bættri vernd íslenskra fjárfestinga erlendis, sérstaklega eftir afnám gjaldeyrishafta.

Sú vernd byggir þó á gæðum gerðardómsákvæða þessara samninga en slík ákvæði eru ekki samræmd milli þeirra samninga sem Ísland hefur gert við önnur lönd. Það þarf að færa til betri vegar á grundvelli mótaðrar stefnu m.a. vegna þess að erlendir fjárfestar eru oft óviljugir til þess að eftirláta landsdómstólum í viðtökuríki fjárfestingarinnar eftir að leysa úr ágreiningi sem upp kann að koma. Fyrir vikið verður jafnvel ekki af viðkomandi fjárfestingu með tilheyrandi búsifjum fyrir hagkerfið.

Varðandi ferli við gerð sértækra fjárfestingarsamninga þá byggir það m.a. á rammalöggjöf um nýfjárfestingar sem aftur byggir á EES reglum um ríkisstyrki sem eru nú í endurskoðun. Ferlið getur tekið talsverðan tíma en það skiptist í nokkra meginþætti sem útlistaðir eru í umræddri löggjöf.

Tengt efni:

Tengt efni

Björn Brynjúlfur í stjórn HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024