Verzlunarskóli Íslands hefur nú bráðum í heila öld verið í fararbroddi viðskiptamenntunar á Íslandi og jafnframt veitt eftirsóknaverða og haldgóða framhaldsskólamenntun. Skólinn hefur notið mikilla vinsælda og hefur nemendum fjölgað ár frá ári. Umsvif skólans hafa jafnframt orðið meiri og hafa þau kallað á stærra húsnæði. Því hefur nú verið byggt 2090 fermetra viðbygging sem hýsir 20 kennslustofur og tvo fyrirlestrarsali.
Verslunarráð Íslands hefur um langt skeið staðið að rekstri Verzlunarskólans í gegnum SVÍV, Sjálfseignastofnun Verslunarráðs Íslands um viðskiptamenntun en formaður SVÍV er Kolbeinn Kristinsson. Á ársfundi stofnunarinnar, mánudaginn 3. nóvember afhentiTómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, fyrir hönd SVÍV, skólanum viðbygginguna við hátíðlega athöfn þar sem tónlistafólk skólans og fleiri komu fram. Í tilefni af stækkun húsnæðisins afhenti Bogi Pálsson, formaður Verslunarráðs, skólanum gjöf ráðsins.
Kolbeinn Kristinsson formaður SVÍV fól Tómasi Inga Olrich menntamálaráðherra að afhenda Þorvarði Elíassyni skólastjóri lyklavöldin að nýju byggingunni. Til hliðar stendur Gunnar Helgi Hálfdanarson formaður skólanefndar VÍ og jafnframt í stjórn SVÍV.
Auk viðbyggingar er unnið að stækkun bókasafns skólans um 385 fermetra með því að lyfta þaki á 4. hæð gamla skólahússins. Áætlaður byggingarkostnaður er 170.000- á hvern fermetra viðbyggingar og 270.000,- á hvern fermetra bókasafns en gera má ráð fyrir að raunverulegur kostnaður verði nokkru lægri.
Byggingarframkvæmdir eru kostaðar af eigin fé og framkvæmdaláni frá Íslandsbanka. Verktaki er Ólafur og Gunnar ehf. en hönnuðir viðbyggingarinnar eru arkitektarnir Ormar Þór Guðmundsson og Hrafnkell Thorlacius.
Skólinn fékk 20 nýjar kennslustofur til afnota við skólasetningu 21. ágúst sl. og hefur nú fengið afhenta tvo sali til viðbótar sem eru sérstaklega hannaðir með þarfir námskeiðahalds í huga. Framkvæmdum við bókasafn mun ljúka um næstu áramót. Þá verður tekið í notkun nýtt bókasafn á 4. hæð gamla skólahússins.
Þann 5. sept. sl. undirrituðu Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra, og Þorvarður Elíasson, skólastjóri, samning um aukið umfang á starfsemi skólans. Samningurinn, sem hefur verið til umfjöllunar milli samningsaðila í þrjú ár, kveður á um að auk kennslu á farmhaldsskólastigi annist skólinn fullorðinsfræðslu og bjóði upp á dreifkennslu og nám til stúdentsprófs á 3 árum. Af því tilefni mun menntamálaráðuneytið fjölga þeim nemendum sem það greiðir fyrir úr 1070 í 1402 eða um 332. Samningurinn kveður á um greiðslur til skólans skv. gildandi reiknilíkani ráðuneytisins með sama hætti og greitt er til annarra skóla, þ. e. kr. 450 milljónir fyrir 1090 nemendur á árinu 2003, eða kr. 413.000- á hvern nemanda. Auk þess tekur ráðuneytið nú þátt í fjármagnskostnaði skólans með því að greiða kr. 530,- á mánuði fyrir hvern fermetra húsnæðis í eigu skólans.