Á nýafstöðnum aðalfundi Verzlunarskóla Íslands tók ný skipulagsskrá skólans gildi. Með henni er aðkoma atvinnulífsins að starfsemi Verzlunarskólans breikkuð auk þess sem tengsl við fyrrverandi nemendur eru efld í gegnum þátttöku þeirra í nýju fulltrúaráði skólans.
Undanfarin 90 ár hefur skólinn starfað undir vernd Viðskiptaráðs Íslands sem hefur jafnframt skipað skólanefnd og fulltrúaráð skólans. Skólinn hefur ávallt lagt ríka áherslu á framsækna stefnu og sterk tengsl við atvinnulífið. Til að efla þessa styrkleika skólans enn frekar ákvað stjórn Viðskiptaráðs Íslands að endurskoða skipulagsskrá skólans.
Samhliða áðurnefndum breytingum á skipulagsskrá skólans tekur nýtt fulltrúaráð til starfa auk þess sem gerðar voru breytingar á skólanefnd. Í fulltrúaráðinu sitja níu einstaklingar og meginhlutverk þess er að marka stefnu skólans í samstarfi við skólanefnd og fylgja eftir framvindu hennar. Þrír meðlimir fulltrúaráðsins eru skipaðir af Viðskiptaráði, þrír af Samtökum atvinnulífsins. Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja og Samtök verslunar og þjónustu skipa einn fulltrúaráðsmann hvert.
Með fjölbreyttari aðkomu atvinnulífsins verður skólinn enn betur í stakk búinn til að mæta ólíkum þörfum viðskiptalífsins og þeim breytingum sem framundan eru í menntamálum landsins. Ber þar helst að nefna fyrirhugaðar breytingar á framhaldsskólastigi í þriggja ára nám en áætlanir gera ráð fyrir að Verzlunarskólinn hefji innleiðingu þeirra haustið 2015. Fjárhagsleg staða skólans er sterk og eflir enn frekar grundvöll þess að Verzlunarskólinn verði áfram leiðandi afl framþróunar á framhaldsskólastigi.
Í nýju fulltrúaráði skólans sitja eftirfarandi aðilar:
Ásdís Kristjánsdóttir – tilnefnd af SA
Benedikt Jóhannsson – tilnefndur af SAF
Frosti Ólafsson – tilnefndur af VÍ
Hannes Frímann Hrólfsson – tilnefndur af SFF
Ingibjörg Gréta Gísladóttir – tilnefnd af VÍ
Jón Diðrik Jónsson, tilnefndur af VÍ
Margrét Flóvenz – tilnefnd af SVÞ
Steinn Logi Björnsson – tilnefndur af SA
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir – tilnefnd af SA
Í skólanefnd Verzlunarskólans sitja eftirfarandi aðilar:
Andri Þór Guðmundsson
Bryndís Hrafnkelsdóttir, formaður
Hannes Frímann Hrólfsson
Helgi Jóhannesson varaformaður
Sigríður Margrét Oddsdóttir