Viðskiptaráð Íslands

Af fundi um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu

Rætt var um möguleika Íslendinga á að taka við erlendum sjúklingum á fjölmennum fundi Sænsk-íslenska verslunarráðsins og Verslunarráðs Íslands um einkarekstur í heilbrigðsþjónustu. Þá var starfsemi St. Göran spítala kynnt en spítalinn var seldur hlutafélagi árið 1999 og er nú eina einkarekna sjúkrahúsið í Svíþjóð sem jafnframt er bráðasjúkrahús. Íslendingurinn Birgir Jakobsson læknir er forstjóri sjúkrahússins en Birgir hefur starfað i Svíþjóð í 25 ár.
Á fundinum kynnti Otto Nordhus fyrirtæki sitt Nordhus Medical sem nýverið gerði samning við bresk heilbrigðisyfirvöld um þjónustu í NHS kerfi Bretanna.
Anna Birna Jensdóttir hjúkrunarforstjóri Sóltúns fjallaði um einkaframkvæmd í öldrunarmálum og hvatti til útboðs á sem flestum sviðum heilbrigðisþjónustu.
Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir sagði frá eftirlitshlutverki embættisins og sagði ekkert mæla á móti því að einkaaðilar taki að sér þjónstu í ríkari mæli en nú er ef höfð eru í huga ákveðin gildi.
Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra ávarpaði fundinn og sagði að sér hugnaðist ekki almenn einkavæðing í heilbrigðiskerfinu. Hins vegar væri nokkur verkefni sem menn hefðu viljað prófa með einkaframkvæmd. Jón brýndi fyrir mönnum að tala skýrt um þessi mál þannig að það liggi fyrir hvort verið sé að tala um einkavæðingu eða einkaframkvæmd.

Í umræðum að framsögum loknum var Otto Nordhus spurður að því hvort hans fyrirtæki gæti hugsað sér að leita hófanna hér á landi um aðstæður til að sinna sjúklingum t.d. frá Bretlandi. Otto svaraði því til að hér á landi virtust vera til staðar það sem til þarf og hann hefði áhuga á að skoða Ísland sem kost í þessum efnum.

Í umræðum kvað sér hljóðs Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar og lýsti þeirri skoðun sinni að ef einkaaðilar sinni betur tiltekinn þjónustu eigi að líta jákvæðum augum á starfsemi þeirra.

Augljóst var af umræðum og mætingu á fundinn að hugmyndir um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu þykja ekki eins nýstárlegar og óraunhæfar eins og bara fyrir nokkrum árum. Umræða um einakrekstur er á dagskrá, bæði hjá stjórnmálamönnum og þeim sem starfa á þessum markaði. Kröfur neytenda lúta eftir sem áður að bestu þjónustu sem völ er á.
Í skýrslu Verslunarráðs til Viðskiptaþings 11. febrúar n.k. verður fjallað ítarlega um einkaframkæmd í heilbrigðiskerfinu.

Erindi / glærur flestra ræðumanna má finna hér.
Erindi Birgis Jakobssonar
Erindi Önnu Birnu Jensdóttur
Erindi Matthíasar Halldórssonar

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024