Ástæða þess að hallaði undan fæti hjá Svíum í samkeppni við aðrar þjóðir fyrir síðustu aldamót var sú að rausnarlegt velferðarkerfið var farið að móta þjóðarsálina. Svíar hafa tekið til í sínu velferðarkerfi með all nokkrum árangri og þeim vegnar betur. Þó er ljóst að Svíar eiga töluvert í það að breyta vinnuviðhorfum í þjóðfélaginu en enn virðist sem margir líti á vinnu sem möguleika fremur en nauðsyn í landinu. Í grein í Financial Times í nóvember sagði að hvern einasta dag séu 370.000 Svíar heima vegna veikinda, tæp tíu prósent af mannafla, og ríkisframlög til sjúkrasjóða eru meiri en öll útgjöld til þróunarmála, háskólamenntunar, rannsókna og varnarmála samanlagt. Asser Lindbeck hagfræðingur við Stokkhólmsháskóla segir um þetta: Ef nágranni þinn er í veikindaleyfi að sinna garðvinnu heima hjá sér, þá viltu gera slíkt hið sama. Ef nágranni þinn fer á eftirlaun sextugur þá viltu líka gera slíkt hið sama og þannig breytist hegðunarmynstur fólks. Ríkisútgjöld hérlendis eru að slá heimsmetið og viðvarandi og aukin ríkisumsvif gera þjóðina í senn reglustikaðri og latari. Áramótaheitið á að vera: Tökum til í ríkisbúskapnum!
Þór Sigfússon