Viðskiptaráð Íslands

Er Ísland flatskattaland?

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra ætlar að skipa nefnd sem ætlað er að fara yfir skattkerfið á Íslandi, með það að markmiði að varpa ljósi á þá þætti sem gera Ísland samkeppnisfært og skilvirkt.  Þetta koma fram í ávarpi ráherra á ráðstefnu Viðskiptaráðs Íslands, Deloitte og KPMG um flata skatta sem haldin var sl. fimmtudag.
 
Nefndin mun einnig hafa það hlutverk að skoða stöðu mála í skattamálum erlendis, ekki eingöngu í þeim löndum sem Íslendingar eru gjarnir á að bera sig saman við, heldur einnig í löndum sem ekki eru "föst í viðjum skattahugsana vestrænna ríkja", eins og segir í tilkynningu frá fjármálaráðherra.

Þar segir enn fremur að útgangspunkturinn í starfi nefndarinnar verði tekjuskattur einstaklinga og fyrirtækja, en aðrir þættir skattkerfisins verði einnig skoðaðir til að varpa betur ljósi á heildarmyndina.

 

Formaður nefndarinnar verður Vilhjálmur Egilsson hagfræðingur en jafnframt verða skipaðir sérfræðingar á sviði skattamála í nefndina, auk þess sem aðilar vinnumarkaðarins og viðskiptalífsins fá tækifæri til þess að tilnefna þar sína fulltrúa.

"Við erum mjög ánægð með þetta frumkvæði ráðherra", segir Þór Sigfússon framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands. "Það er mjög tímabært að skoða nýjar leiðir í skattamálum og meta þau tækifæri sem við kunnum að skapa ef Ísland tekur forystu í skattamálum."

Þór segir athyglisvert að þegar kynnt sé skattaumhverfi þeirra landa sem helst hafa verið talin til flatskattalanda kemur í ljós að Íslendingar eru síst eftirbátar margra þessara landa. "Við erum með fremur flatt kerfi og færri undanþágur en þekkjast víða jafnvel í samanburði við þau lönd sem eru þekkt fyrir flata skatta. Þetta á að vera okkur hvatning að gera enn meira.  Þar tel ég mjög spennandi tækifæri vera í því að taka upp eitt skattþrep í virðisaukaskatti og að lækka tekjuskattinn frekar en fækka um leið undanþágum og afsláttum.  Við munum kynna hugmyndir í þessa veruna fljótlega," segir Þór.


Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024