Undanfarin ár hefur Viðskiptaráð Íslands haft umsjón með vefkönnun og gagnavinnslu fyrir viðskiptaháskólann IMD vegna árlegrar úttektar skólans á samkeppnishæfni þjóða. Úttekt IMD byggir annarsvegar á svörum stjórnenda við netkönnun og hinsvegar á hagvísum. Til að niðurstöður séu birtar þarf að nást ákveðin svörun úr netkönnun, auk þess sem upplýsingar um hagvísa þurfa að liggja fyrir.
Viðskiptaráð aðstoðaði IMD við framkvæmd vefkönnunarinnar í ár, með útsendingu könnunar og eftirfylgni, en baðst undan því að sinna gagnavinnslu í tengslum við hagvísa o.þ.h. Um þetta var haft gott samkomulag. Tjáði fulltrúi IMD Viðskiptaráði að IMD myndu sjálfir safna viðeigandi gögnum.
Svarhlutfall hefur verið tiltölulega lágt á undanförnum árum og að þessu sinni var það það enn lægra, en könnun IMD var send út í mars. Í ljósi þess taldi IMD þau gögn sem þeir byggja niðurstöðu sína óáreiðanleg og tóku því þá ákvörðun að ekki yrði fjallað um Ísland í skýrslu IMD um samkeppnishæfni þjóða í ár. Þetta var talinn vænlegri kostur en að birta ónákvæmar upplýsingar um landið, sérstaklega þegar efnahagsástand er viðkvæmd hérlendis. Þetta er ábyrg niðurstaða að mati Viðskiptaráðs Íslands.
Í skýrslu IMD í ár er gerð grein fyrir 55 af tæplega 200 þjóðum heims. Þar er tilgreind innbyrðist staða þeirra þjóða sem fjallað er um hverju sinni. Listi IMD er því ekki tæmandi listi yfir samkeppnishæfustu þjóðir heims, heldur tekur hann til þeirra þjóða um hverjar gögnum var aflað.
Ástæða er til að leggja áherslu á að úttekt IMD í ár felur ekki í sér endurmat á samkeppnishæfi Íslands, heldur aðeins að að gögn voru ekki nægilega áreiðanleg til að hægt væri að meta samkeppnishæfi landsins samkvæmt forskrift IMD.