Viðskiptaráð Íslands

Betri árangur með bættum stjórnarháttum

Fyrir rétt tæpum fimm árum gáfu Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Kauphöllin út fyrstu leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja hérlendis. Það er skemmst frá því að segja að mikið vatn hefur runnið til sjávar frá útgáfu leiðbeininganna, sem miðuðu að því að sýna vilja í verki til að axla aukna ábyrgð með bættum stjórnarháttum og gagnsæi. Þrátt fyrir að rekstur fjölda fyrirtækja hafi verið til fyrirmyndar undanfarin ár er ljóst að viðtökur við leiðbeiningunum ollu þó nokkrum vonbrigðum og vantraust í garð fyrirtækja og viðskiptalífs er til vitnis um að margt hefur betur mátt fara.

Þrátt fyrir dræmar undirtektir verða endurbættar leiðbeiningar gefnar út í dag, fimmtudag. Ástæðan fyrir áframhaldandi viðleitni í átt að bættum stjórnarháttum er ekki úr lausu lofti gripin. Því miður má segja að ófarir undanfarinna missera bendi til brotalama í stjórnarháttum margra fyrirtækja, bæði hérlendis og erlendis. Heimskreppa fjármála hefur ýtt við frekari umræðu um hlut stjórnarhátta í núverandi ástandi og hefur hún orðið til þess að kennsl hafa verið borin á ýmsa vankanta í þeim efnum. Í ljósi þess og með hliðsjón af þeirri staðreynd að íslenskt viðskiptalíf hefur orðið sérstaklega illa úti, ekki síst álitslega, var við hæfi að hér yrði brugðist við af festu og stjórnarhættir í íslensku viðskiptalífi bættir til frambúðar. Fyrsta skrefið í þeirri vegferð er endurskoðun fyrri leiðbeininga.

Nýjar leiðbeiningar fela í sér víðtæka endurskoðun á þeim fyrri. Þær byggja á margvíslegum fyrirmyndum og við undirbúning þeirra var leitað í smiðju fjölda reyndra aðila á ýmsum sviðum fyrirtækjareksturs. Leiðbeiningarnar innihalda nú bæði fleiri og ítarlegri ákvæði en þær fyrri og í þeim eru gerðar ríkari kröfur til stjórnenda fyrirtækja á nær öllum sviðum. Helstu viðbætur og breytingar tengjast hlutverki stjórnarformanns, innra eftirliti og áhættustýringu, starfskjarastefnu, auk þess sem lögð er rík áhersla á upplýsingagjöf. Einnig er nú fjallað um siðareglur og samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, sem sýnt er að leggja þarf áherslu á til skemmri og lengri tíma.

Með því að undirgangast ríkar kröfur leiðbeininganna um góða stjórnarhætti ganga íslensk fyrirtæki og stjórnendur á undan með góðu fordæmi og sýna vilja í verki til lagfæringar á því sem miður hefur farið. Þannig er jafnframt lagður grunnur að endurheimt trausts og trúverðugleika sem er grunnforsenda þess að kraftmikið og heilbrigt viðskiptalíf fái þrifist. Ærið tilefni og ríkur vilji til endurbóta, auknar kröfur hluthafa og aðkoma háskóla- og rannsóknarsamfélagsins á síðari stigum munu varða braut aukinnar eftirfylgni og þar með bættra stjórnarhátta – viðskiptalífinu, samfélaginu í heild, fyrirtækjum og stjórnendum þeirra til hagsbóta.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024