Eftirfarandi tilkynning hefur borist frá Seðlabankanum:
"Vegna hinna sérstöku aðstæðna sem upp komu í rekstri banka nú í október lögðust niður viðskipti á millibankamarkaði með gjaldeyri. Á þeim markaði sinntu stóru viðskiptabankarnir þrír hlutverki viðskiptavaka samkvæmt reglum um tíðni tilboða, verðmyndun og fleira.
Í staðinn kom Seðlabankinn upp svonefndum tilboðsmarkaði fyrir gjaldeyri, samanber tilkynningu á heimasíðu bankans 15. október s.l. Á þeim markaði eru fleiri fjármálafyrirtæki en við fyrri skipan en taka ekki á sig skyldur viðskiptavaka. Niðurstöður um viðskipti og verð eru birtar daglega á heimasíðu Seðlabankans.
Ætla má að unnt sé að auka veltu og styrkja verðmyndun á tilboðsmarkaðnum. Í því skyni eru útflytjendur og aðrir sem eiga gjaldeyri eindregið hvattir til að bjóða hann til sölu á þeim vettvangi. Þeir geta snúið sér til fjármálafyrirtækja sem eiga viðskipti við Seðlabankann og falið þeim að koma tilboðum sínum á framfæri.
Verðmyndun utan tilboðsmarkaðar er til þess fallin að seinka heilbrigðum viðskiptaháttum með gjaldeyri og skaða tilraunir til að koma þeim í eðlilegt horf. Auk þess eru utanmarkaðsviðskipti ógagnsæ og áhættusöm."