Viðskiptaráð Íslands

Tilkynning frá Seðlabanka: Upplýsingar um erlendar greiðslur

Seðlabankinn hefur birt ítarlegar upplýsingar um greiðslur á milli landa þegar þær fara um Seðlabankann:

"Af gefnu tilefni vill Seðlabanki Íslands útskýra hvernig greiðslur milli landa eiga sér stað í þeim tilvikum þegar þær fara um Seðlabanka Íslands. Hér er tekið dæmi af greiðslum frá Bretlandi til Íslands en útskýringin á við um hvaða mynt sem er og jafnt um greiðslur til og frá Íslandi.

Að tala um að greiðsla í erlendri mynt sé send til Íslands er að vissu leyti villandi. Greiðslur í GBP fara í raun aldrei út úr greiðslukerfum Bretlands. Sama á við um DKK og Danmörku, EUR og Evrulönd og svo framvegis. Það sem gerist er að greiðslan er lögð inn á reikning íslensks banka í breskum banka í Lundúnum. Á grundvelli upplýsinga um þessa innlögn greiðir íslenski bankinn endanlegum móttakanda.

Í dag fer þetta þannig fram að greiðslan er lögð inn á reikning Seðlabankans hjá National Westminster Bank. Þegar Seðlabankinn fær upplýsingar um greiðsluna, greiðir hann viðskiptabanka móttakandans og sendir upplýsingarnar áfram til hans. Viðskiptabankinn greiðir síðan endanlega inn á reikning móttakanda.

Þar sem Seðlabankinn er aukamilliliður í þessu tilviki getur reynst snúið að framkvæma greiðslur til Íslands í gegnum netbanka og höfum við nokkur dæmi þess að þetta hafi valdið vandkvæðum og seinkum greiðslna. Við mælum því eindregið með því að ef einhver vafi leikur á um hvernig fylla á út umsókn á netinu þá hafi greiðandinn frekar beint samband við sinn banka og óski eftir millifærslunni á gamla mátann.

Það hefur brugðið við að greiðslur eru lagðar inn á reikninga Seðlabankans, en Seðlabankinn ekki fengið neinar upplýsingar um greiðsluna aðrar en fjárhæðina á daglegum yfirlitum. Þetta hefur orðið til þess að tefja afgreiðslu. Til að auka líkurnar á því að Seðlabankinn fái tímanlegar og réttar upplýsingar er best að greiðandinn biðji sinn banka um að greiðslan sé send sem „International Customer Transfer“, og að Seðlabankinn fái sent svo kallað SWIFT MT103-skeyti. Ef það er gert er tryggt að hægt verði að afgreiða til viðskiptabankans sama dag og Seðlabankinn fær greiðsluna.

Að öðru leyti vísum við til greiðslufyrirmæla fyrir hinar ýmsu myntir sem fram koma á vef Seðlabankans, sjá:
Greiðslufyrirmæli

Hér eru gefin upp nöfn og SWIFT- kóðar þeirra banka sem Seðlabankinn á reikning hjá. SWIFT-kóði Seðlabankans er einnig gefinn upp og er ástæðan fyrst og fremst sú að í heimi erlendrar greiðslumiðlunar eru bankar ávallt auðkenndir með SWIFT-kóða.

Að lokum viljum við eindregið vara við því að nota greiðslufyrirmæli þar sem einungis er tekið fram nafn eins þriggja viðskiptabankanna og síðan upplýsingar um nafn og reikningsnúmer viðtakanda. Það veldur því að greiðslan verður send inn á einhvern af reikningum gömlu bankanna og mun að öllum líkindum festast þar. Fyrir þá sem hafa þegar gert þetta og ekki fengið greiðsluna bendum við á að afturkalla hana og senda á ný í samræmi við ofangreind greiðslufyrirmæli"

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024