Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, ræddi um kjaradeilur og hugmyndir ríkisstjórnarinnar um breytingar á skattkerfinu í viðtali á RÚV í gær. Þar kemur fram að ráðið telji það fagnaðarefni að ríkið íhugi að lækka skatta og fækka skattþrepum til að liðka fyrir kjaraviðræðum. Hann sagði hækkun persónuafsláttar hins vegar ekki af hinu góða í ljósi þess að með því væri skattkerfið fært í áttina að aukinni stigvaxandi skattbyrði. Því meira stigvaxandi sem skattlagningin yrði þeim mun þyngra legðist hún á þá sem hafa sótt sér menntun og eru með hærri laun. Skv. Eurostat er hvatinn til að mennta sig minnstur hér á landi miðað við Norðurlöndin. Laun einstaklinga hér á landi hækka einungis um 16% fyrir að ljúka bæði framhalds- og háskólaprófi. Sambærileg hækkun er 25-40% á öðrum Norðurlöndum.
Í umræðu um einfaldara skattkerfi hafði Frosti þetta að segja:
„Við hjá Viðskiptaráði höfum alltaf verið fylgjandi því að skattkerfið sé haft eins einfalt, gagnsætt og skilvirkt og unnt er. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Í fyrsta lagi eru þessir eiginleikar til þess fallnir að byggja undir aukna verðmætasköpun hagkerfisins með minni kostnaði við umsýslu hjá hinu opinbera og minni áhrifum á hvata innan hagkerfisins. Þess fyrir utan er auðvitað líka gagnlegt í þessu samhengi - og ég held að það spili ágætlega inn í þá umræðu sem á sér stað núna um kjaramál og þær deilur sem eru uppi – að þetta eykur auðvitað gagnsæi í umræðu. Því einfaldari sem skattkerfi eru því auðveldara er að eiga umræðu um áhrif skattkerfisins og hvernig byrðin dreifist á ólíka hópa.“