31. mars 2016
Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, hélt í morgun erindi á ráðstefnu alþjóðlega stjórnendaþjálfunarfyrirtækisins FranklinCovey fyrir stjórnendur íslenskra fyrirtækja. Umfjöllunarefni ráðstefnunnar er aukin framleiðni á íslenskum vinnustöðum.
Kynninguna má nálgast hér
Í erindi Frosta kom eftirfarandi fram:
-
Framleiðni á Íslandi er um fimmtungi lægri en í grannríkjunum og hefur lítið aukist á síðustu árum. Lága framleiðni má rekja til fjögurra megináskorana sem hægt er að bregðast við: smæðar hagkerfisins, efnahagsumhverfis, viðskiptahindrana og regluverks- og stofnananaumhverfisins.
-
Nýta ætti krafta samkeppni víðar og draga úr samkeppnisröskunum. Í núverandi umhverfi býr landbúnaður ásamt heilbrigðis- og menntakerfi við takmarkaða samkeppni. Ennfremur skekkja stjórnvöld samkeppni með atvinnurekstri á sviðum sorphirðu, smásölu, póstþjónustu, fjármálaþjónustu og orkuframleiðslu.
-
Stofnanakerfið þarf að taka tillit til smæðar Íslands. Eftirlitsstofnanir verða hlutfallslega stærri vegna smæðarinnar en engu að síður er reynt að viðhalda kerfi í takt við mun stærri hagkerfi. Færri og stærri stofnanir gætu sinnt betur hlutverkum sínum og með hagkvæmari hætti.