Viðskiptaráð, í samvinnu við Samtök atvinnulífsins og Nasdaq OMX Ísland, mun standa fyrir kynningarfundum í september á nýjum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja.
Um verður að ræða stutta fundi á tímum sem henta stjórnendum og starfsmönnum viðkomandi aðildarfélags ráðsins. Farið verður yfir efnistök nýju leiðbeininganna, spurningum svarað og leitast verður við að gefa félögum ráð varðandi innleiðingu þeirra.
Kynningarfundirnir eru hluti af aukinni áherslu Viðskiptaráðs, SA og Kauphallarinnar á að íslensk fyrirtæki tileinki sér viðmið og leiðbeiningar um góða stjórnarhætti. Það er samhljóma álit þessara samstarfsaðila að almenn innleiðing leiðbeininga um góða stjórnarhættir sé eitt af mörgum mikilvægum skrefum í átt að endurreisn íslensks viðskipta- og efnahagslífs.
Félagar geta óskað eftir kynningarfundi fyrir sitt fyrirtæki með því að hafa samband við Harald I. Birgisson, lögfræðing Viðskiptaráðs, í gegnum tölvupóstfangið haraldur@vi.is eða í síma 510-7109 eða Hörð Vilberg hjá SA, hordur@sa.is eða 591-0005. Miðað er við að fundirnir verði haldnir í húsakynnum ráðsins, félögum að kostnaðarlausu.
Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja eru aðgengilegar hér.