Við þær aðstæður sem nú ríkja í efnahagsmálum þjóðarinnar er brýnt að líta fram á við og huga að nýjum sóknarfærum. Efnahagsleg velferð landsins veltur á framtíðarsýn þjóðarinnar og því hvaða málaflokka helst verður lögð áhersla á næstu misserin. Frumkvöðlastarf getur gegnt lykilhlutverki í því endurreisnarstarfi sem framundan er enda eru nýjar hugmyndir og athafnasemi forsenda efnahaglegs fjölbreytileika og sterkrar samkeppnisstöðu atvinnulífs.
Dagana 16. – 22. nóvember 2009 verður hvatt til slíkra verka en þá verður Alþjóðleg athafnavika haldin um heim allan, þ.m.t. á Íslandi. Viðburðinum er ætlað að tengja saman fólk og hugmyndir um allan heim, þvert á öll landamæri og menningarstrauma. Boðið verður upp á fjölda viðburða sem hannaðir eru til þess að kynna fólki leiðir til að nýta hæfileika sína til nýsköpunar, athafnasemi og frumkvöðlahugsunar. Nemendur, frumkvöðlar, stjórnendur, starfsmenn fyrirtækja, stjórnmálaleiðtogar og margir fleiri munu taka þátt í fjölda viðburða af öllum stærðum og gerðum á meðan Athafnaviku stendur. Með þessu frumkvæði er vonast til þess að næsta kynslóð frumkvöðla fái innblástur og hvatningu til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd.
Markmið Athafnaviku er að frumkvöðlar verði brautryðjendur efnahagslegrar og samfélagslegrar hagsældar um allan heim.Að verkefninu kemur fjöldi fyrirtækja og samtaka, en Viðskiptaráð Íslands er á meðal samstarfsaðila verkefnisins. Umsjónaraðili Alþjóðlegrar athafnaviku á Íslandi er Innovit, nýsköpunar- og frumkvöðlasetur.
Dagskránna í heild og frekari upplýsingar má nálgast á vefnum
www.athafnavika.is.