Viðskiptaráð Íslands fagnar áformum fjármála- og efnahagsráðherra um að girða fyrir pöntunarþjónustu Fríhafnarinnar ehf. Samkvæmt nýju frumvarpi verður fyrirtækinu óheimilt að taka á móti pöntunum frá öðrum en þeim sem eru staddir í komuversluninni.
Opinber komuverslun tímaskekkja
Á sama tíma og fríhafnarverslun er á undanhaldi í nágrannalöndunum aukast umsvifin á Íslandi. Fríhöfnin ehf. er þannig farin út fyrir upphaflegt hlutverk sitt um að vera vettvangur fyrir tækifæriskaup ferðamanna á leið úr landi. Umfangsmikið markaðsstarf og netsala eru stunduð í þeim tilgangi að ná markaðshlutdeild af innlendum smásölum.
Hið opinbera verður af skatttekjum með því að leyfa skattfrjálsri verslun að taka hlutdeild af innanlandsmarkaði með þessum hætti. Afleiðing þess verður að neysluskattar og þar með vöruverð innan landamæranna þurfa að hækka til að skatttekjur hins opinbera geti haldist óbreyttar.
Bein samkeppni við innlenda smásala
Fríhöfnin ehf. stundar markaðsstarf sem miðar beinlínis að því að auka markaðshlutdeild fyrirtækisins á kostnað innlendra smásala. Auglýsingaborðar eru víðsvegar um fríhöfnina, á netinu og í almennum dagblöðum sem tilgreina að mun hagstæðara sé að versla í fríhöfninni heldur en í íslenskum verslunum.
Fríhöfnin hefur undanfarið gengið enn lengra í samkeppni sinni við innlenda smásala með því að bjóða viðskiptavinum að panta vörur á netinu og láta annan aðila, sem á leið um flugstöðina, sækja þær fyrir sig í komuverslun Fríhafnarinnar. Þessi þjónusta hefur verið kölluð „express“ þjónusta í nýlegum markaðsherferðum. Með þessu er ekki lengur nauðsynlegt að fara af landi brott til þess að versla inn vörur án opinberra gjalda, hægt er að gera slíkt öllum stundum.
Leggja ætti Fríhöfnina ehf. niður
Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að halda áfram á þessari braut. Á smásölumarkaði, líkt og á öllum öðrum mörkuðum, er mikilvægt að heilbrigt samkeppnisumhverfi sé ávallt til staðar. Tilvist Fríhafnarinnar ehf. í núverandi mynd vinnur gegn markmiði um heilbrigða samkeppni á jafnréttisgrundvelli. Til þess að laga þessa stöðu leggur Viðskiptaráð til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á fyrirkomulagi fríhafnarverslunar hérlendis:
Þessar breytingar myndu leiða til aukinnar hagkvæmni í verslunarrekstri hérlendis, draga úr samkeppni ríkisins við einkaaðila á smásölumarkaði og auka veltu í innlendri verslun. Slík áhrif myndu veita stjórnvöldum svigrúm til að draga úr álagningu neysluskatta og smásölum svigrúm til að draga úr álagningu vegna aukinnar veltu. Afleiðingin væri lægra verðlag og aukinn kaupmáttur neytenda hérlendis.