Ísland hækkar um fjögur sæti á milli ára í nýrri úttekt bandarísku hugveitunnar Tax Foundation yfir samkeppnishæfni skattkerfa OECD-ríkja. Ísland situr nú í 20. sæti af 34 ríkjum. Í umfjöllun Viðskiptablaðsins um úttektina var rætt við Björn Brynjúlf Björnsson, hagfræðing Viðskiptaráðs. Hann telur að þrátt fyrir bætingu á milli ára megi enn margt betur fara við skattheimtu hérlendis.
Umfangsmiklar undanþágur frá VSK
Björn nefndi tvö dæmi í því samhengi. Annars vegar séu ennþá til staðar umfangsmiklar undanþágur frá virðisaukaskatti. Í úttektinni kemur fram að minnihluti neysluútgjalda hérlendis fellur undir almennt þrep virðisaukaskatts. Gjaldhlutfall skattsins þurfi því að vera umtalsvert hærra en ef slíkra undanþága nyti ekki við – en hærri gjaldhlutföll valda stigvaxandi velferðartapi.
Óhagkvæmur fjármagnstekjuskattur
Jafnframt benti Björn á að fjármagnstekjuskattur hér á landi sé óhagkvæmur. Í tólf ríkjum í úttektinni er skatturinn ekki lagður á verðbætur og reiknast því einungis af raunávöxtun. Þrátt fyrir háa verðbólgu í alþjóðlegu samhengi er hins vegar ekkert slíkt ákvæði hérlendis. Það dragi úr hvata til sparnaðar og ýti undir áhættusækni.
Tengt efni: