Viðskiptaráð Íslands

Ísland stenst ekki samkeppni um erlenda fjárfestingu

Viðskiptaráð hefur skilað umsögn um frumvarp sem miðar að því að einfalda regluverk í tengslum við erlendar fjárfestingar. Ráðið bendir á tækifæri til úrbóta með því að afnema skattskyldu söluhagnaðar erlendra aðila og tryggja samkeppnishæfari skattframkvæmd til að laða að aukna erlenda fjárfestingu og verðmætasköpun á Íslandi.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar ofangreint frumvarp sem er ætlað að einfalda regluverk í tengslum við erlendar fjárfestingar, einkum í nýsköpun, og þar af leiðandi auðvelda íslenskum fyrirtækjum að sækja fjármagn erlendis.

Ísland stenst ekki samkeppni um erlenda fjárfestingu

Aðgengi að lánsfé er grundvallarþáttur í möguleika nýsköpunarfyrirtækja til vaxtar og með frumvarpinu er ætlunin að styðja við íslenskt atvinnulíf, einkum fyrirtæki í nýsköpun með því að auka samkeppnishæfni þeirra við fyrirtæki í öðrum löndum. Samkeppnishæfni íslenska skattkerfisins skorar lágt í alþjóðlegum samanburði, ekki síst hvað varðar skattlagningu yfir landamæri.[1]

Með frumvarpinu birtist viðleitni stjórnvalda til að bæta skattaumhverfið, einfalda regluverkið og stuðla að auknu fjármagni til íslenskra fyrirtækja og efla verðmætasköpun hér á landi.

Tækifæri til að gera enn betur

Samkvæmt a. lið 1. gr. frumvarpsins fellur brott skattskylda erlendra aðila og einstaklinga vegna söluhagnaðar hlutabréfa í íslenskum hlutafélögum, þó að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Viðskiptaráð fagnar þessari breytingu en telur rétt að falla frá nánar umræddum skilyrðum og hætta alfarið að skattleggja hagnaðinn svo reglur hér séu sambærilegar þeim sem gilda á hinum Norðurlöndunum. Ákvæðið byggir að nokkru leyti á ákvæðum sem þekkjast í tvísköttunarsamningum en ráðið telur mikilvægt að ákvæðið verði lögfest, bæði til að einfalda skattframkvæmd en ekki síst vegna þess að Ísland hefur gert færri tvísköttunarsamninga en öll önnur ríki Evrópu.

Með 3. gr. frumvarpsins eru felld brott tíu ára tímamörk á nýtingu eftirstöðva rekstrartaps. Viðskiptaráð fagnar þessari breytingu enda er hún í samræmi við reglur á Norðurlöndum og öðrum löndum Evrópu, þar sem engin tímamörk eru á hversu lengi fyrirtæki mega nýta sér uppsafnaða skattinneign. Þá er því fagnað að fallið hafi verið frá bráðabirgðaákvæði um að tíu ára tímamörk vegna rekstrartaps gildi áfram um eftirstöðvar rekstrataps sem lauk á árinu 2024 eða fyrr í tíu ár og því verði engin tímamörk á nýtingu eftirstöðva rekstrartaps.

Viðskiptaráð telur markmið frumvarpsins og útfærslu þess til mikilla bóta og væntir þess að það einfaldi skattframkvæmd og styðji við aukna erlenda fjárfestingu hér á landi, samfélaginu öllu til hagsbóta.

Viðskiptaráð hvetur til þess að frumvarpið nái fram að ganga.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

Tilvísun

1 Taxfoundation – International Tax Competitiveness Index 2025: https://taxfoundation.org/research/all/global/2025-international-tax-competitiveness-index/

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024