Viðskiptaráð Íslands reynir eftir fremsta megni að bera sig eftir framsæknum og áhugaverðum hugmyndum. Undanfarið hefur ein bók framar öðrum veitt ráðinu innblástur sem til að mynda leiddi af sér staðreyndavitundarpróf ráðsins.
Bókin nefnist Factfulness, sem þýða má sem Staðreyndavitund á íslensku, en Factfulness er einmitt orðaleikur höfunda að orðinu mindfulness eða núvitund á íslensku. Skilgreining Hans Rosling, aðalhöfundar bókarinnar, á staðreyndavitund er: „Hinn róandi vani að hafa aðeins skoðanir á því sem þú getur rökstutt með staðreyndum.“*
Bókin á að mati ráðsins erindi við alla, sérstaklega þá sem hafa mikinn áhuga á samfélagsmálum, bæði hér heima og heiman. Við vonumst því til að sem flestir stingi eintaki af Factfulness undir tréð hjá sínum nánustu, og jafnvel í skóinn hjá sjálfum sér.
„Svarið felst aldrei í einni stefnu“
Hjálmar Gíslason, stofnandi Datamarket, frumkvöðull, englafjárfestir og framkvæmdastjóri GRID skrifaði meðal annars um bókina:
„Í flestri umræðu heyrast hæst þær raddir sem eru á sitthvorum öfgunum. Þar liggja oft ríkustu hagsmunirnir, heitasta sannfæringin og sterkustu tilfinningarnar… Þess vegna er bók læknisins og gagnatöframannsins heitins Hans Rosling – Factfulness – svo kærkomin. Með snörpum og skemmtilegum skrifum sýnir hann okkur lesendum annars vegar fram á það hversu skökk og úrelt heimsmynd okkar er að mörgu leyti og gefur hins vegar ráð um það hvernig best sé að nálgast flókin úrlausnarefni, hvernig hægt er að vara sig á rangfærslum og forðast rangar ályktanir þegar tilfinningarnar, áróðurinn eða vanþekkingin verða rökunum yfirsterkari.“
Baráttan við loftslagsbreytingar og örbirgð
Í bókinni er mikið fjallað um hvað hagur mannkyns hefur vænkast á undanförnum áratugum. Hans Rosling leggur hins vegar gríðarmikla áherslu á að ógnina sem steðjar að mannkyni vegna loftslagsbreytinga þurfi að nálgast af festu og að í heiminum séu hópar sem búa við sárafátækt, sem þurfi að uppræta. Það náist með aukinni verðmætasköpun á heimsvísu en líka beinum aðgerðum.
*Á ensku: „The stress-reducing habit of only carrying opinions for which you have strong supporting facts.“