Viðskiptaráð Íslands

Verðmæti verða ekki til af sjálfu sér

Ég átti samtal við konu í vikunni sem hafði af því áhyggjur að elsti sonur hennar væri ekki með „almennilega vinnu“ eins og hún orðaði það. Hann væri að reyna að koma á fót einhvers konar nýsköpunarfyrirtæki og tónninn gaf til kynna takmarkaða trú hennar á þessum áformum. Hann væri fjölskyldumaður sem gæti ekki staðið í „einhverju frumkvöðlaharki“ sem gæfi lítið sem ekkert í aðra hönd þrátt fyrir þrotlausa vinnu.

Ég hóf að setja mig í stellingar og útskýra fyrir henni mikilvægi verðmætasköpunar og frumkvöðlastarfs. Hvernig eini sjálfbæri drifkraftur aukinnar hagsældar til lengri tíma væri að skapa aukin verðmæti á hverja vinnustund og stuðla að betri nýtingu auðlinda. Ég fór yfir hvernig aukin verðmætasköpun gefi rými til launahækkana, arðgreiðslna og aukins fjármagnskostnaðar. Ég var rétt að byrja þegar hún stoppar mig af og segist ekki skilja svona hagfræðital. Hún sé fyrst og fremst að hugsa um son sinn og velferð fjölskyldu hans. Hvað verði um efnahagsmál þjóðarinnar séu ekki hennar aðaláhyggjuefni.

En áhyggjuefnið er einmitt það. Atvinnutækifæri eru ekki sjálfgefin þó Ísland hafi búið við fádæma lítið atvinnuleysi síðastliðin ár. Atvinna skapast ekki úr engu. Geta atvinnurekenda til að greiða laun rennur ekki úr sjálfblekungum undirskrifaðra kjarasamninga. Verðmæti verða ekki til af sjálfu sér.

Það er ábyrgð okkar allra að átta okkur á hlutverki okkar í þessu sambandi. Hvert og eitt okkar þarf að stuðla að aukinni verðmætasköpun í hvaða starfi sem við stundum. Til að auka verðmætasköpun og fjölga atvinnutækifærum þarf oftar en ekki að fara ótroðnar slóðir, rannsaka, taka áhættur, fjárfesta en um leið hafa þol fyrir mistökum. Umgjörð alls þessa verða stjórnvöld og fyrirtæki að skapa eins og kostur er.

Við þurfum að endurskoða skilning okkar á því hvað sé „almennileg vinna“.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Endahnúti Viðskiptablaðsins þann 20. júní 2019.

Tengt efni

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024

Eftirlitsmisskilningur Þórunnar

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess …
31. ágúst 2024