„Útgjaldavöxtur síðustu ára hefur kynt undir háa verðbólgu og valdið bæði heimilum og fyrirtækjum búsifjum.“
Viðskiptaráð Íslands skilaði nýverið inn umsögn um fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2029. Ráðið vill koma á framfæri eftirfarandi atriðum:
Útgjaldaaukning vegna faraldurs ekki enn gengin til baka
Í nýrri fjármálaáætlun er áformað að halda opinberum útgjöldum áfram yfir fyrra stigi á næsta ári og að þau fari ekki í fyrra horf fyrr en árið 2026. Að mati Viðskiptaráðs er það of lítið aðhald. Útgjaldavöxtur síðustu ára hefur kynt undir háa verðbólgu og valdið bæði heimilum og fyrirtækjum búsifjum. Ef stjórnvöld vinda ekki ofan af honum hraðar en hér er lagt upp með þýðir það að verðbólgan verður hærri og þrálátari en ella.
Viðskiptaráð vekur athygli á því reynst hefur erfitt að vinda ofan af tímabundinni útgjaldaaukningu ríkissjóðs vegna heimsfaraldurs á árinu 2020. Meðal Norðurlanda eru opinber útgjöld ennþá hæst á Íslandi samanborið við árið fyrir faraldur.
Hið opinbera greiðir daglega um 350 milljónir í vexti
Vaxtagjöld eru orðin einn stærsti útgjaldaliður hins opinbera. Í nýrri fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að þau nemi um 650 milljörðum króna yfir tímabil áætlunarinnar. Það þýðir að á hverjum degi næstu fimm árin munu 350 milljónir króna fara í vaxtagreiðslur af opinberum skuldum. Að mati Viðskiptaráðs er þessi kostnaður of hár. Þá fjármuni sem aflað er með sköttum ætti fyrst og fremst að nýta til að fjármagna opinbera þjónustu – ekki til að borga af lánum.
Flýta ætti eignasölu
Áformað er að uppsöfnuð heildarafkoma ríkissjóðs verði neikvæð um 32 ma. kr. næstu fimm árin og að eignasala skili um 80 mö. kr. samtals á öllu tímabilinu. Í eignasölu vegur sala á eftirstandandi hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka árið 2025 þyngst. Aðrar eignasölur eru óútfærðar.
Að mati Viðskiptaráðs ættu stjórnvöld að selja hluti í fleiri fyrirtækjum en Íslandsbanka á tímabilinu. Ráðið áætlar að verðmæti nokkurra fyrirtækja í eigu ríkisins sé yfir þúsund milljarðar króna í dag. Með sölu á hlutum í þessum fyrirtækjum getur ríkissjóður greitt upp stóran hluta skulda sinna.
Sala á Keflavíkurflugvelli?
Í fjármálaáætluninni er nefnt að einkaaðilar hafi undanfarin ár komið að rekstri flugvalla í Evrópu, að undanskildum þjóðhagslega mikilvægum innviðum á borð við flugbrautir. Til og með 2020 hafa um 450 alþjóðaflugvellir verið einkavæddir. 169 þessara flugvalla má finna í Evrópu, sem hefur gengið lengst í þessum efnum (mynd 4).
Nýleg rannsókn kannar áhrif þessarar þróunar og niðurstaðan er að skilvirkni, afköst og gæði flugvalla aukast eftir einkavæðingu. Þessi áhrif eru sterkust þegar flugvellir eru seldir til innviðasjóða, en það eru langtímafjárfestar með sérstaka þekkingu á innviðum og/eða flugvöllum.
Rannsóknirnar benda til þess að innviðasjóðir séu duglegri við að fjárfesta í stækkun og viðbótum við flugstöðvar og séu þannig öflugri en opinberir aðilar við uppbyggingu flugvalla. Enn fremur segir að þegar innviðasjóðir kaupa flugvelli frá stjórnvöldum þá eykst fjöldi flugfélaga sem fara um flugvöllinn, framboð á flugleggjum eykst, rekstrartekjur vaxa, og upplifun viðskiptavina batnar.
Að mati Viðskiptaráðs ættu íslensk stjórnvöld að fylgja þessu fordæmi með því að selja hlut í Keflavíkurflugvelli til einkaaðila eins og t.d. innviðasjóða.