Viðskiptaráð Íslands

Ríkisstjórn CDM fylgjandi flestum framfaramálum

Yfir 5.000 gestir hafa myndað 10.000 ríkisstjórnir í stefnumálareikni Viðskiptaráðs. Algengustu ríkisstjórnarmeirihlutar sem hafa verið skoðaðir eru CFS, CDM og CDS. Af þeim þremur sýnir reiknirinn að ríkisstjórn CDM væri fylgjandi flestum efnahagslegum framfaramálum.

Ríkisstjórnarsamstarf Viðreisnar, Flokks fólksins og Samfylkingar (CFS), Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks (CDM) og Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar (CDS) eru þrjár mest skoðuðu ríkisstjórnirnar í stefnumálareikni Viðskiptaráðs.

Reiknirinn sýnir hvaða mál eru líkleg til að rata í stjórnarsáttmála eftir því hvaða flokkar mynda ríkisstjórn. Niðurstöðurnar byggja á afstöðu flokkanna sjálfra til 60 efnahagslegra framfaramála, en það eru mál sem myndu auka efnahagslegt frelsi að mati Viðskiptaráðs.

CFS, CDM og CDS mest skoðuðu ríkisstjórnarmynstrin

Af notendum reiknivélarinnar skoðuðu 33% ríkisstjórnarsamstarf Viðreisnar, Flokks fólksins og Samfylkingar (CFS), 24% samstarf Viðreisnar, Sjálfstæðis­flokks og Miðflokks (CDM) og 15% sam­starf Viðreisnar, Sjálfstæðis­flokks og Samfylkingar (CDS). Afstaða þessara ríkis­stjórna til framangreindra mála er þó nokkuð ólík eftir því um hvaða ríkisstjórnarsamstarf ræðir.

Ríkisstjórn CFS er fylgjandi 2 málum, getur samið um 14 mál, er ósamstíga í 16 málum og er mótfallin 28 málum. Ríkisstjórn CDM er fylgjandi 23 málum, getur samið um 25 mál, er ósamstíga í 9 málum og er mótfallin 3 málum. Þá er ríkisstjórn CDS fylgjandi 12 málum, getur samið um 16 mál, er ósamstíga í 25 málum og er mótfallin 7 málum.

Af þeim þremur ríkisstjórnarsamstörfum sem voru mest skoðuð er ríkisstjórn CDM fylgjandi flestum málum. Ríkisstjórn CDM er jafnframt bæði ósamstíga í fæstum málum og mótfallin fæstum málum.

CFS ósamstíga í 16 af 60 málum

Stefnumálareiknirinn leiðir í ljós að þeir flokkar sem nú eiga í stjórnarmyndunarviðræðum, þ.e. Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins, eru ósamstíga í 16 málum af 60. Viðreisn og Samfylking eru til að mynda fylgjandi því að klára sölu á Íslandsbanka og að sala á lausasölulyfjum í matvöru­verslunum verði heimiluð, en Flokkur fólksins andvígur. Þá telur Viðreisn að Ísland eigi að ganga lengra en ESB í samdrætti á losun gróðurhúsalofttegunda, en Flokkur fólksins ekki. Þá er Viðreisn fylgjandi en Flokkur fólksins andvígur þegar kemur að sölu á hlut í Landsbankanum, slitum Íbúðarlánasjóðs, auknu frelsi á leigubíla­markaði og uppbyggingu raforkumarkaðar fyrir fyrirtæki hér á landi.

Meirihluti CDM er sammála um að ljúka sölu Íslandsbanka, selja hlut í Landsbankanum, hætta rekstri ÁTVR, lækka tryggingagjalds, auka frjálsræði á leigubílamarkaði á Íslandi, afnema stimpilgjald við kaup á fasteignum og uppbyggingu raforkumarkaðar fyrir fyrirtæki. Færri mál eru umdeild meðal þessara þriggja flokka, en þeim greinir m.a. á um hvort afnema eigi tolla á innflutt matvæli, leyfi til rannsókna og vinnslu á olíuauðlindum innan lögsögu Íslands, afnám lagakvaðar um jafnlauna­vottun og lækkun á bankaskatti.

Ríkisstjórn CDS er samstíga um að koma á útgjaldareglu, ljúka sölu Íslandsbanka, fækka fasteignum í eigu ríkisins, leyfa sölu lausasölulyfja í dagvöruverslunum og að auka heimildir ríkissáttasemjara. Þeim greinir þó á um þónokkur lykilmál, en þar má t.d. nefna hvort ríkið eigi að hætta rekstri ÁTVR, afnám jafnlaunavottunar, lækkun fjármagnstekjuskatts, bankaskatts og tekjuskatts á lögaðila, afnám tolla á innflutt matvæli og afnám jafnlaunavottunar.

---

Umfjöllun í fjölmiðlum:

Þetta er besta ríkisstjórnin að mati Viðskiptaráðs - Bítið, 5. des. 2024

Alvöru kosningauppgjör í Grjótkastinu - viljinn.is, 3. des. 2024

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024