Leikreglum er ætlað að vernda heildarhagsmuni en kostnaður fyrirtækja vegna framfylgni þeirra deilist hins vegar ójafnt niður. Þannig bera smærri fyrirtæki mun þyngri byrðar vegna íþyngjandi leikeglna en þau sem stærri eru.
Í úttekt Samráðsvettvangs um aukna hagsæld kemur fram að hlutfallslegur kostnaður fjölmenns fyrirtækis (yfir 250 starfsmenn) af því að framfylgja regluverki er þannig einungis um 10-15% af kostnaði lítils fyrirtækis (færri en 10 starfsmenn).
Þessi mismunur gerir það að verkum að íþyngjandi leikreglur geta haft neikvæð áhrif á samkeppni og nýsköpun með því að skapa aðgangshindranir á mörkuðum. Stjórnvöld ættu því að leitast við að einfalda leikreglur eftir fremsta megni til að draga úr aðgangshindrunum sem koma í veg fyrir heilbrigða samkeppni.
Í nýju riti Viðskiptaráðs, „Leiðin á heimsleikana: aukin framleiðni í innlendum rekstri,“ sem kemur út samhliða Viðskiptaþingi 2016 á fimmtudag, er fjallað nánar um leikreglur og framfylgni þeirra hérlendis í alþjóðlegu samhengi. Þar eru einnig kortlagðar helstu áskoranir og tækifæri til aukinnar framleiðni í innlendum rekstri.