Viðskiptaráð Íslands

Skiptar skoðanir um virkni lífeyrissjóða sem hluthafa

Morgunverðarfundur Viðskiptaráðs, Nasdaq Iceland og Samtaka atvinnulífsins um samvistir lífeyrissjóða og almennra fjárfesta á hlutabréfamarkaði fór fram á Icelandair hótel Reykjavík Natura fyrr í dag. Í erindum ræðumanna og í pallborðsumræðum komu fram fjölbreytt sjónarmið um hvernig lífeyrissjóðir skuli hegða sér sem hluthafar. 

Í erindi sínu sagði Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, ljóst að lífeyrissjóðirnir séu og munu áfram verða fyrirferðamiklir í íslensku atvinnulífi. Að mati Páls eiga lífeyrissjóðirnir að beita sér af fullum krafti, með sams konar hætti og aðrir fjárfestar, og vernda þar með hagsmuni sína í fyrirtækjum sem þeir eiga hlut í. Á Íslandi er ríflega 40% af markaðsvirði skráðra hlutabréfa í höndum lífeyrissjóða. Páll taldi að miðað við þetta mikla umfang sjóðanna hér á landi væri óraunhæft að ætla þeim að sitja á hliðarlínunni. Hann taldi þó að gera ætti ríkari kröfur til sjóðanna en nú eru gerðar, t.d. með því að auka gagnsæi um stjórnarkjör og settar yrðu skýrar stefnur sjóðanna í samkeppnismálum.

Helga Hlín Hákonardóttir, ráðgjafi hjá Strategíu, fjallaði í kjölfarið um stofnanafjárfesta sem virka hluthafa og ítrekaði í því samhengi mikilvægi þess að gagnsæi ríki um virkni fjárfestisins. Taldi hún óheppilegt að starfsmenn stofnanafjárfesta settust sjálfir í stjórnir rekstrarfélaga. Hins vegar sagði hún stofnanafjárfesta eiga að vera annað og meira en stofuskraut og sagði langtímahagsmuna sé gætt með virkri þátttöku, frumkvæði og samkeppni.

Traust á milli fjárfesta skiptir höfuð máli, en almennir fjárfestar og stofnanafjárfestar geta unnið saman í hlutafélögum svo lengi sem allir fara eftir reglum. Þetta kom fram í erindi Heiðars Guðjónssonar, fjárfestis og hagfræðings. Hann sagði hlutabréfamarkaðinn skipta miklu fyrir atvinnulífið og almenning. Hann gefi kost á öflun nýs hlutafjár, áhættudreifingu og þátttöku almennings í atvinnulífinu.

Í umræðum tóku þátt auk ræðumanna þau Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI og Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA og formaður stjórnar Gildis lífeyrissjóðs og Þóranna Jónsdóttir, forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík. Skiptar skoðanir voru um virkni lífeyrissjóða sem hluthafa en eining var um mikilvægi þess að hafa allt uppi á borðum varðandi forsendur og stefnu lífeyrissjóða sem fjárfesta. Einnig kom fram það sjónarmið að sjóðirnir ættu að birta hvernig þeir greiða atkvæði á hluthafafundum svo að gagnsæi sé ríkjandi.

Glærukynningar:

Myndir frá fundinum má nálgast á Facebook-síðu Viðskiptaráðs

Tengd umfjöllun:

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024