Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar frumvarp sem felur í sér heildarendurskoðun á lögum um loftslagsmál. Ráðið leggur áherslu á að endurskoðun laganna byggi á gagnsæju mati á kostnaði og ávinningi aðgerða, þar sem samkeppnishæfni atvinnulífsins og sérstaða Íslands séu höfð að leiðarljósi.
Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar ofangreind frumvarpsdrög. Með frumvarpinu, sem felur í sér heildarendurskoðun á núgildandi löggjöf, er stefnt að því að stjórnsýsla loftslagsmála verði efld og skilvirk innleiðing aðgerða tryggð. Viðskiptaráð er fylgjandi því að lög um loftslagsmál séu endurskoðuð með það fyrir augum að auka skýrleika og meta árangur núverandi stefnu bæði út frá kostnaði og ávinningi aðgerða stjórnvalda í málaflokknum.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir endurskilgreiningu verkefna stofnana ríkisins í tengslum við loftslagsmál. Þar segir að nýjar stjórnsýslunefndir, svo sem Landsnefnd um vísindastarf vegna loftslagsbreytinga, samhæfingarhópur og framkvæmdahópur um loftslagsaðgerðir, geti kallað á aukin útgjöld. Þá segir jafnframt í greinargerð með frumvarpinu að kanna þurfi svigrúm til útgjalda vegna aðlögunaraðgerða samhliða fjármögnun annarra loftslagsaðgerða. Í frummati frumvarpsins var þó ekki gert ráð fyrir útgjalda- eða tekjubreytingum og engar líkur taldar á áhrifum á samkeppnisskilyrði. Að mati Viðskiptaráðs er sú niðurstaða óraunhæf, enda kallar frumvarpið á umtalsverð útgjöld og aukna umsýslu. Að mati ráðsins ætti að kostnaðarmeta þessi áhrif áður en frumvarpið verður lagt fram á Alþingi.
Viðskiptaráð hefur á undanförnum árum unnið greiningar á efnahagslegum áhrifum loftslagsaðgerða stjórnvalda. Í úttekt ráðsins á aðgerðaráætlun í loftslagsmálum kom fram að um tveir þriðju fyrirhugaðra aðgerða hefðu neikvæð efnahagsleg áhrif, m.a. í formi aukinnar skattheimtu, meiri reglubyrði og hærri útgjalda ríkisins. [1] Niðurstöðurnar undirstrika mikilvægi þess að bæði kostnaður og ávinningur loftslagsaðgerða sé metinn. Að öðrum kosti er hætta á að íþyngjandi aðgerðir verði innleiddar með takmörkuðum árangri, sem veikja samkeppnishæfni atvinnulífsins og draga úr getu þess til að fjárfesta í grænum lausnum sem draga úr útblæstri. Því er mikilvægt að stjórnvöld skapi atvinnulífinu raunhæft svigrúm til fjárfestinga en forðist óhóflega skattheimtu eða reglubyrði á grundvelli loftslagsmála.
Samkeppnishæfni Íslands er lykilforsenda grænna umbreytinga hérlendis. Á undanförnum árum hefur Evrópusambandið (ESB) lagt aukna áherslu á að loftslagsaðgerðir verði útfærðar á þann hátt að neikvæð efnahagsleg áhrif þeirra séu lágmörkuð, ellegar muni lífsgæði í álfunni skerðast til lengri tíma litið. [2] Þessi nálgun er sérlega mikilvæg fyrir Ísland, þar sem verðmætasköpun er þegar umhverfisvæn og hlutfall endurnýjanlegrar orku margfalt hærra en innan ESB. Svigrúm til frekari samdráttar í losun er því minna en annars staðar og hætta á að háleitum markmiðum verði aðeins náð með þyngri byrðum á íslenskt samfélag en gert er annars staðar.
Mikilvægt er að stjórnvöld taki mið af þessari sérstöðu Íslands og forðist að setja strangari reglur eða viðbótarkvaðir en tíðkast í samanburðarlöndum, því slíkt myndi skerða samkeppnishæfni og draga úr fjárfestingargetu í grænni tækni og innviðum. Þess í stað ættu stjórnvöld að sækjast eftir undanþágum frá alþjóðlegum skuldbindingum þar sem því verður við komið í ljósi sérstöðu landsins sem felst einkum í háu hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa, litlum útblæstri á hverja einingu skapaðra verðmæta, og mikilvægis flug- og skipasamgangna fyrir hagkerfið. [3]
Viðskiptaráð gagnrýnir að í frumvarpinu sé hvorki kveðið skýrt á um samráð við atvinnulífið við gerð og endurskoðun loftslagsstefnu né að atvinnulífið eigi fulltrúa í loftslagsráði, líkt og raunin er í dag. Slíkt samráð er lykilatriði, bæði vegna sérþekkingar atvinnulífsins á tæknilegum lausnum og vegna efnahagslegra áhrifa loftslagsaðgerða á atvinnulíf. Þá áréttar Viðskiptaráð að skýrt kostnaðar- og ábatamat fylgi aðgerðaáætlunum í samræmi við ákvæði gildandi laga. Í núverandi aðgerðaáætlunum hefur slíkt mat verið ófullnægjandi og einungis hluti aðgerða metinn á grundvelli efnahagsáhrifa og ábata aðgerða. Án mats á kostnaði og ávinningi aðgerða er ómögulegt að tryggja gagnsæi, byggja upp breiða samstöðu um nauðsynlegar aðgerðir og liðka fyrir nýjum lausnum sem geta skipt sköpum í því markmiði að draga úr útblæstri.
Að framangreindu virtu leggur Viðskiptaráð áherslu á eftirfarandi atriði:
Umsögnin í heild sinni má lesa hér.
1 Sjá úttekt Viðskiptaráðs á efnahagslegum áhrifum loftslagsaðgerða (september 2024): https://vi.is/greining/efnahagsleg-ahrif-loftslagsadgerda
2 Sjá skýrslu Mario Draghi um efnahagsmál og samkeppnishæfni innan ESB: https://commission.europa.eu/topics/eu-competitiveness/draghi-report_en#paragraph_47059
3 Fyrirmynd fyrir slíku er m.a. undanþágur frá skuldbindingum Kyoto-bókunarinnar við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um laftslagsbreytingar á árunum 1995-2001.