Viðskiptaráð Íslands

Hlutverk hins opinbera þarfnist stöðugrar endurskoðunar

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar stöðumat og valkosti fyrir stefnu um opinbera þjónustu. Ráðið telur að stöðug endurskoðun þurfi að eiga sér stað á því hvort hið opinbera þurfi að sinna allri þeirri þjónustu sem það gerir í dag. Jafnframt hefur ráðið áhyggjur af hraðri aukningu útgjalda til almannatryggingakerfisins.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar stöðumat og valkosti fyrir stefnu um opinbera þjónustu. Ráðið tekur undir mikilvægi þess að skýr stefna liggi fyrir um hvernig opinber þjónusta er veitt og að hún byggi á raunverulegum þörfum notenda. Stöðugt vaxandi umsvif hins opinbera krefjast þess að markvisst sé horft til þess hvernig fjármunir eru nýttir, hvar unnt sé að bæta skilvirkni í þjónustu og hvar eðlilegt sé að endurskoða aðkomu ríkisins að einstökum þjónustuþáttum.

Að mati Viðskiptaráðs þarf samhliða umbótum í opinberri þjónustu að tryggja atvinnulífinu skilvirka og samkeppnishæfa umgjörð sem ekki er til þess fallin að draga úr verðmætasköpun. Það skiptir sköpum í því markmiði að skapa rétt jafnvægi milli opinbera kerfisins og almenns vinnumarkaðar. Nauðsynlegt er að regluverk sé einfalt og ekki óþarflega íþyngjandi og að stjórnvöld láti af því að „gullhúða“ EES-reglur þannig að íslensk fyrirtæki verði ekki sett í verri stöðu en erlendir samkeppnisaðilar. Þá telur ráðið mikilvægt að farið verði í heildarrýni á stofnanaumhverfi með það að markmiði að auka skilvirkni, draga úr tvíverknaði og ná fram hagræðingu í kerfinu.

Ráðið telur jafnframt að stöðug endurskoðun þurfi að eiga sér stað á því hvort hið opinbera þurfi að sinna allri þeirri þjónustu sem það gerir í dag. Sérstaklega á þetta við á sviðum þar sem einkaaðilar geta aukið framboð, bætt þjónustugæði og dregið úr álagi á opinbera kerfið, meðal annars í heilbrigðisþjónustu þar sem einkaaðilar eru mikilvæg viðbót og stuðla að nýsköpun. Stafræn umbreyting er lykilþáttur í umbótum og brýnt að hið opinbera nýti hagkvæmar og nútímalegar tæknilausnir, sérstaklega innan heilbrigðiskerfisins þar sem miklir möguleikar eru til hagræðingar og bættrar þjónustu með innleiðingu heilbrigðistækni og gagnadrifinna lausna.

Viðskiptaráð lýsir jafnframt áhyggjum af hraðri aukningu útgjalda til almannatryggingakerfisins og telur brýnt að brugðist verði við með innleiðingu starfsgetumats og úrræðum sem styðja atvinnuþátttöku þeirra sem hafa getu og vilja til starfa, enda getur það bæði bætt lífsgæði einstaklinga og dregið úr útgjaldaþrýstingi til langs tíma. Þá styður ráðið markmið um gott og jafnt aðgengi að þjónustu fyrir alla en leggur áherslu á að slík markmið verði að nást með markvissri forgangsröðun, skilvirkni og hagnýtingu stafrænnar tækni, þannig að takmörkuðum fjármunum sé beint þangað sem þörfin er mest. Þá er það tíundað að þrátt fyrir að hið opinbera beri ábyrgð á ákveðinni þjónustu þarf það ekki að sinna henni sjálft.

Með skýrri áherslu á skilvirkni, einfalt og fyrirsjáanlegt regluverk, aukna hagræðingu, virkari þátttöku einkaaðila og markvissa stafvæðingu er unnt að byggja upp opinbera þjónustu sem er bæði vönduð, sjálfbær og í takt við þarfir samfélagsins til framtíðar.

Svör við einstökum spurningum í samráði:

1. Telur þú að stöðumatið endurspegli núverandi stöðu opinberrar þjónustu?

Viðskiptaráð telur að stöðumat endurspegli að nokkru leyti þá stöðu sem ríkir í opinberri þjónustu í dag, einkum þegar kemur að áskorunum í gæðum, aðgengi og skilvirkni. Hins vegar vantar ítarlegri greiningu á umfangi opinberrar starfsemi, þróun útgjalda og hvar ríkið getið gefið eftir í þeim fjölmörgu verkefnum sem það hefur tekið að sér og falið einkaaðilum að sinna þeim. Í ljósi þess hve stór hluti verðmætasköpunar fer nú í gegnum opinbera geirann er brýnt að þessi þáttur komi skýrar fram í stöðumatinu.

2. Hvaða lykilviðfangsefni ættu að vera í forgangi næstu ár?

Ráðið telur að forgangsverkefni næstu ára eigi að snúa að einfaldara, skýrara og fyrirsjáanlegra regluverki fyrir fyrirtæki og almenning, heildarrýni á stofnanauppbyggingu, starfsmannahaldi og verklagi til að draga úr tvíverknaði og auka skilvirkni, auk þess sem skoða þarf markvisst hvar einkaaðilar geti komið að þjónustuveitingu á hagkvæman hátt. Þá er mikilvægt að bæta nýtingu fjármuna í almannatryggingakerfinu með því að innleiða starfsgetumat og efla úrræði sem stuðla að aukinni atvinnuþátttöku.

3. Hvernig tryggjum við jafnt aðgengi að þjónustu fyrir alla hópa samfélagsins?

Til að tryggja jafnt aðgengi þarf að hanna þjónustu út frá þörfum notenda og nýta stafrænar lausnir á þann hátt að þær einfaldi ferli, nái til fleiri hópa og séu aðgengilegar óháð búsetu. Þá skiptir forgangsröðun og skilvirkni í rekstri miklu máli, því góð nýting opinberra fjármuna er forsenda þess að hægt sé að veita jafna og góða þjónustu á landsvísu. Með því að nýta bæði opinbera og einkaaðila sem þjónustuveitendur opinberrar þjónustu má auka sveigjanleika og bæta aðgengi í þeim geirum þar sem skortur á þjónustu hefur verið viðvarandi.

4. Hvaða tækifæri sérðu í stafvæðingu og nýtingu tæknilausna?

Stafvæðing opnar á veruleg tækifæri til að bæta þjónustugæði, draga úr kostnaði og tryggja samræmdari vinnubrögð. Með gagnadrifinni stjórnsýslu er hægt að einfalda ferli, stytta afgreiðslutíma og minnka handavinnu innan kerfisins. Stafrænar lausnir geta jafnframt veitt betra aðgengi fyrir notendur óháð staðsetningu og skapað skýrari yfirsýn yfir þjónustuframboð.

5. Er eitthvað sem vantar í drögin sem ætti að bæta við?

Viðskiptaráð telur að í drögunum vanti skýrari umfjöllun um hlutverkaskiptingu hins opinbera og einkaaðila og greiningu á því hvar hið opinbera getur haldið að sér höndum við veitingu þjónustu, sérstaklega þar sem einkaaðilar geta boðið upp á hagkvæmari og sveigjanlegri útfærslur. Þá mætti styrkja umfjöllun um mikilvægi fyrirsjáanleika í regluverki og opinberum gjöldum, auk þess sem áhersla á heildarrýni stofnanakerfisins og markvissa hagræðingu þarf að vera skýrari. Með því móti væri framtíðarsýnin bæði raunhæfari og betur í takt við sjálfbær opinber fjármál.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024