Viðskiptaráð Íslands

Vel heppnað Viðskiptaþing

Viðskiptaþing 2025 fór fram fimmtudaginn 13. febrúar undir yfirskriftinni „forskot til framtíðar.“ Þar var fjallað um þau forskot sem Ísland býr yfir og hvernig landið geti skapað sér ný forskot til að byggja undir lífsgæði til framtíðar.

Þingið hófst á ávarpi frá Andra Þór Guðmundssyni, formanni Viðskiptaráðs. Þar fjallaði hann um það hvernig Ísland hefur skapað sér forskot byggð á auðlindum í breiðum skilningi. Hann lagði áherslu á að náttúruauðlindir séu ekki nægjanlegt skilyrði til að skapa sér forskot, heldur skipti öllu máli hvernig þjóðir nýti auðlindir sínar og hvaða umgjörð þær búi verðmætasköpun.

Andri varpaði einnig ljósi á ólíka þróun verðmætasköpunar í Bandaríkjunum og Evrópu undanfarin 15 ár. Á meðan að mikill hagvöxtur hefur verið í Bandaríkjunum, hefur Evrópusambandið bundið sig í sífellt þyngra regluverki sem hamlar nýsköpun og grósku í atvinnulífinu.

Andri Þór Guðmundsson, formaður Viðskiptaráðs.

Að lokum fjallaði Andri um það hvernig aukið efnahagslegt frelsi hefur byggt undir lífskjör okkar og stutt við forskot okkar Íslendinga. Benti hann á þessu til stuðnings sölu fjölda ríkisfyrirtækja á tíunda áratugnum og afnám fjölda viðskiptahindrana, bæði innanlands og í milliríkjaviðskiptum. Andri lauk svo ávarpinu á að leggja áherslu á mikilvægi þess að Ísland haldi áfram að auka efnahagslegt frelsi svo landið verði áfram í fremstu röð þegar kemur að lífsgæðum og velsæld. Ávarpið í heild sinni má lesa hér.

Næst steig sænski rithöfundurinn og fræðimaðurinn Johan Norberg á svið og fjallaði um mikilvægi efnahagslegs frelsis í stóru samhengi. Hann byrjaði á því að fjalla um hagvöxt og lagði áherslu á að með auknum hagvexti aukist lífsgæði á öllum öðrum mælikvörðum, hvort sem horft er til læsis, umhverfisgæða, fátæktar og lífslíkna.

Norberg setti þessi gildi efnahagslegs frelsis í samhengi við Ísland og lagði fram þrjár ráðleggingar. Sú fyrsta var að halda regluverki í lágmarki, svo fyrirtæki og einstaklingar hefðu sem mest svigrúm til athafna. Önnur var að hið opinbera hygli ekki sérstaklega ákveðnum geirum eða greinum, með niðurgreiðslum eða tollavernd. Þriðja ráðleggingin var að Ísland haldi áfram að vera opið gagnvart umheiminum og stunda frjáls viðskipti. Hann taldi að þessi þrjú ráð muni tryggja að Ísland verði áfram framarlega í lífsgæðakapphlaupi þjóðanna.

Johan Norberg er sænskur rithöfundur og fræðimaður.

Að erindi Norbergs loknu flutti Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, erindi um hvernig skapa megi forskot í rekstri hins opinbera. Þar fjallaði hún um hvernig það blasti við henni að koma inn í opinberan rekstur úr einkageiranum. Ásdís dró fram styrkleikana sem blöstu við henni í rekstrinum, hverju var auðvelt að breyta og hvar mátti hagræða.

Þá benti Ásdís einnig á að mismunandi umgjörð starfsmannamála á milli hins opinbera og einkamarkaðarins og hvernig rík uppsagnarvernd, mikill veikindaréttur, flókið ráðningarferli og skortur á tækifærum til að umbuna góðu starfsfólki hamlar hinu opinbera í að skapa sér forskot. Að endingu fjallaði hún svo um þau tækifæri sem Kópavogsbær sér í því að skapa sér forskot í skólamálum. Ásdís fór þar yfir þær breytingar sem þegar hafa verið gerðar á leikskólastiginu og þá möguleika sem eru til staðar í grunnskólum Kópavogs.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi.

Að kaffihléi loknu kynnti Viðskiptaráð þá nemendur sem hlutu námsstyrk þetta árið í stuttu myndbandi. Fjórir nemendur á fjölbreyttum sviðum hlutu styrk í ár, milljón hver. Nánar má lesa um úthlutun úr menntasjóði hér.

Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, ávarpaði svo þingið venju samkvæmt. Þar fjallaði hún um áherslur ríkisstjórnarinnar sem snúa að atvinnulífinu og lýsti yfir vilja á samstarfi við atvinnulífið.

Hún lagði áherslu á skýra stefnumótun og mikilvægi þess að stækka kökuna. Með því að skapa aukin verðmæti má styrkja velferðina hér á landi og þannig styrkja samfélagið í heild. Ávarpið í heild sinni má lesa hér.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.

Síðasta erindi þingsins var frá Róberti Wessman, stjórnarformanni og forstjóra Alvotech, sem kynnti rekstur fyrirtækisins og setti í samhengi við frumkvöðlaumhverfið hér á landi. Hann sagði frá því hvernig fyrirtækið varð til og þeim áskorunum sem það mætti í upphafi.

Þá sagði Róbert frá möguleikunum sem felast í framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja, varpaði ljósi á alþjóðlega samkeppnisumhverfið sem fyrirtækið starfar í og hvaða þýðingu vöxtur fyrirtækisins gæti haft fyrir Ísland. Hann fjallaði svo um samstarf fyrirtækisins við Háskóla Íslands og nýjan viðskiptahraðal sem fyrirtækið hyggst koma á fót.

Róbert Wessman, forstjóri og stofnandi Alvotech.

Þinginu lauk svo með pallborðsumræðum þar sem þau Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins sátu fyrir svörum. Í pallborðinu var farið yfir víðan völl, en áhersla var lögð á hvernig Ísland gæti skapað sér forskot til framtíðar og þátt stjórnmálanna í þeirri vegferð. Einnig var snert á samskiptum Íslands við umheiminn og hvernig við ættum að bregðast við yfirvofandi viðskiptastríði og hótunum um tolla.

Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, var fundarstjóri á þinginu og stýrði jafnframt pallborðsumræðum.

Björn Brynjúlfur, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, stýrði pallborði þar eftirtaldir tóku þátt: Hanna Katrín Friðriksson, Hildur Sverrisdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Viðskiptaráð vill nota tækifærið og þakka sérstaklega þeim sem tóku þátt í dagskrá á þinginu. Við viljum jafnframt þakka þeim sem sáu sér fært að mæta, hlýða á það sem fram fór á þinginu og tengjast öðrum fundargestum í hléi og móttöku.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024