„Tilgangur rannsóknanna og framlag til vísindasamfélagsins er að koma auga á og benda á færar leiðir til þess að loka því kynjabili sem enn ríkir í atvinnulífinu hér á landi.“
Ný vefsíða í tengslum við rannsóknarverkefni á vegum vísindafólks innan Háskóla Íslands og samstarfsaðila var opnuð í gær á Kvennafrídeginum. Rannsóknarverkefnið snýr að því hvernig loka megi kynjabilinu í atvinnulífinu.
Verkefnið hlaut styrk úr Rannsóknasjóði Rannís vorið 2023. Viðskiptaráð Íslands er einn bakhjarla rannsóknarinnar ásamt Festi og Símanum sem eru aðildarfélög í Viðskiptaráði.
Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Viðskiptafræðideild, leiðir verkefnið: „Tilgangur rannsóknanna og framlag til vísindasamfélagsins er að koma auga á og benda á færar leiðir til þess að loka því kynjabili sem enn ríkir í atvinnulífinu hér á landi. Einnig að mæla áhrif löggjafar á jafnlaunavottun og hverju hún skilar og jafnframt að setja á laggir gagnsætt mælaborð kynjakvarða til að meta áhrif kynjajafnvægis á fjárhagslega afkomu og sjálfbærni- og umhverfisvísa sem útfæra má á alþjóðavettvangi.“
Á vefssíðunni er nú þegar fjöldi greina um stöðu kynjanna í atvinnulífinu auk nýs mælaborðs sem Deloitte og Creditinfo hönnuðu fyrir Jafnvægisvogina 2023. Upplýsingar verða uppfærðar á sex mánaða fresti. Mælaborðið getur því gagnast vel þeim sem eru að rannsaka stöðu kynjanna í atvinnulífinu og fyrir fjölmiðla.