Viðskiptaráð Íslands

Sex tillögur til að auka skilvirkni leyfisveitinga

Viðskiptaráð Íslands fagnar áframhaldinu vinnu stjórnvalda við að auka skilvirkari leyfisveitingar á sviði umhverfis- og orkumála á Íslandi með endurhönnun ferla, endurskoðun regluverks, stafrænum lausnum og breyttu verklagi. Ráðið vísar til umsagnar á fyrri stigum og er fylgjandi þeim markmiðum að einfalda, samræma og stytta afgreiðslutíma en um leið tryggja gæði og gagnsæi við leyfisveitingar.

Ljósafossstöð var gangsett 1937 og er staðsett við Ljósafoss, útfall Úlfljótsvatns.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar áform um breytingar á ýmsum lögum vegna einföldunar leyfisferla, samræming málsmeðferðar o.fl. í umhverfis- og orkumálum.

Áformin fela hvorki í sér tæmandi né ítarlega útfærslu á fyrirhuguðum breytingum og því vill ráðið árétta sex tillögur sem það lagði fram til að auka skilvirkni leyfisveitinga án þess að draga úr kröfum um gæði, öryggi eða náttúru- og umhverfisvernd. En þær eru:

  • Einn ábyrgðaraðili. Einni stofnun verði falin ábyrgð á ferlinu og verkhlutar tengdir saman í einn úrvinnsluferil.
  • Ein rafræn gagnagátt. Bæði opinberir aðilar og umsóknaraðilar hafi aðgang að öllum gögnum á einum stað.
  • Einfalt regluverk. Regluverk sé samræmt, í takti við stafræna umbreytingu og geri bæði skýrar og hlutlægar kröfur.
  • Einn leyfisveitandi. Ein stofnun veiti endanlegt leyfi og aðkoma annarra opin-berra aðila felist í umsögnum til hennar.
  • Vel skilgreindir tímafrestir. Tímafrestir séu vel skilgreindir, virtir og kveðið á um afleiðingar þess að farið sé fram yfir lögbundna fresti.
  • Fáar kæruleiðir. Kæruleiðir í öllu ferlinu séu ein eða tvær talsins, líkt og í samanburðarlöndum.

Viðskiptaráð vekur jafnframt athygli á því að samkvæmt kafla D.2. í áformskjali um helstu fyrirhuguðu breytingar á gildandi lögum og reglum er hvorki vísað til orkulaga, nr. 58/1967 sem fela í sér ákvæði um leyfisveitingar vegna hitaveitu né laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun sem óhjákvæmilega hafa áhrif á leyfisveitingar og málsmeðferð í umhverfis- og orkumálum.

Ráðið hvetur stjórnvöld til hafa það að leiðarljósi að einfalda regluverk, auka skilvirkni, samþætta aðkomu stofnana og draga úr íþyngjandi kröfum. Með því megi auka samkeppnishæfni, styðja við orkuskipti og stuðla að aukinni verðmætasköpun.

Virðingarfyllts,
María Guðjónsdóttir
Lögfræðingur Viðskiptaráðs

Tengt efni

Ný sjálfbærnitilskipun hefur áhrif á flestöll fyrirtæki

Ný tilskipun Evrópusambandsins um sjálfbærnireikningsskil mun hafa áhrif á …
10. september 2024

Þríþættar framfarir en alvarlegur annmarki

Ný frumvarpsdrög mennta- og barnamálaráðuneytisins um námsmat fela í sér …
3. september 2024

Brotið gegn jafnræði í grunnskólum

Misræmi er á milli skólaeinkunna úr íslenskum grunnskólum, en nemendur með sömu …
19. júlí 2024