Í Markaði Fréttablaðsins miðvikudaginn 16. febrúar skrifaði Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi aðstoðarmaður og núverandi ráðgjafi fjármálaráðherra í skattamálum, pistil undir yfirskriftinni Furðuskrif Viðskiptaráðs um skatta. Þar vísar hann til greinar undirritaðs í sama blaði frá 2. febrúar og vekur það helst furðu Indriða að því sé haldið fram að skattar hafi hækkað á Íslandi síðustu misseri. Það er reyndar ekki óalgeng fullyrðing þessi dægrin og eftirtektarvert að hún sé yfirleitt umdeild.
Viðskiptaráð er ávallt reiðubúið í málefnalega umræðu um störf þess og málefni atvinnulífsins en undir slíka umræðu fellur aðeins hluti af grein Indriða. Í stað þess að fjalla eingöngu um málefnið, sem er hinar „meintu skattahækkanir" eins og það er orðað, er lagst í dylgjur sem lítill sómi er að. Við þeim er ástæðulaust að bregðast sérstaklega. Hér verður því aðeins fjallað um þá spurningu hvort skattar hafi hækkað eða lækkað á síðustu misserum, en í grein Indriða er því haldið fram að þar sem skatttekjur hafi dregist saman sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafi skattar lækkað. Það er rétt að skatttekjur hafa dregist saman en rangt að í því felist skattalækkun í þeim skilningi orðsins sem skiptir íslensk heimili og fyrirtæki raunverulegu máli.
Minni skattheimta en hærri skattar
Óumdeilt er að skattheimta, þ.e. skatttekjur sem hlutfall af landsframleiðslu, hafa dregist saman síðustu ár. Sérstaklega var tekið fram í áðurnefndri grein undirritaðs að frá 2007 til 2008 hefði „þetta hlutfall lækkað mest á Íslandi af ríkjum OECD, úr tæplega 41% í 36%" og það hefði lækkað enn frekar frá þeim tíma. Skattheimta ríkis og sveitarfélaga er þó óðum að aukast ef marka má nýlega úttekt OECD, sem telur að í ár verði skattheimta nálægt því sem var 2008 og aðeins 1,2% undir meðaltali áranna 2000-2007.
Þrátt fyrir minni skattheimtu hafa flestir skattar engu að síður hækkað. Þess má sjá merki víða. Í úttekt starfshóps fjármálaráðherra, sem Indriði starfaði sjálfur með, er m.a. að finna 11 atriða „skattamatseðil" með átta tillögum að hækkunum sem flestar komu til framkvæmda um síðustu áramót. Í fjárlagafrumvarpi þessa árs kemur síðan skýrt fram að grípa hafi þurft til „enn frekari skattahækkana í fjárlögum ársins 2010" en gert var 2009. Þá er á ríflega 100 stöðum í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem samþykkt var um áramótin, rætt um skatta- og gjaldahækkanir.
Að auki finna allir þeir sem reka íslensk heimili og fyrirtæki vel fyrir skattahækkunum, til að mynda þegar þeir kaupa eldsneyti, greiða laun og tryggingargjald eða vegna minni ráðstöfunartekna vegna hærri tekjuskattsprósentu, svo fátt eitt sé nefnt. Fyrir þeim er fullyrðing um að hér hafi skattar lækkað eflaust nokkuð fjarstæðukennd.
Úr því að erfitt er að nálgast á einum stað heildstæðar upplýsingar um skattkerfisbreytingar hjá opinberum aðilum tók Viðskiptaráð saman yfirlit yfir breytingar á helstu sköttum frá árinu 2007. Þar kemur skýrt fram að skattprósentur og krónutöluálögur hafa nánast undantekningalaust hækkað. Þessa samantekt notaði undirritaður í grein þeirri sem Indriði furðar sig á en að hans mati hafa „skatthlutföll ekki hækkað", sé vefútgáfa pistils hans lesin. Erfitt er að skilja hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu.
Skattkerfisbreytingar hafa áhrif...
Það dylst því fáum að skattprósentur og álögur hafa hækkað á Íslandi, enda eitt meginstef núverandi ríkisstjórnar. Það hvort skattheimta hins opinbera hafi aukist sem hlutfall af landsframleiðslu er svo annað mál enda ljóst að skattahækkanir skila sér ekki endilega í auknum skatttekjum og geta jafnvel lækkað þær, t.d. vegna neikvæðra áhrifa á umsvif og veltu í hagkerfinu. Pistill Indriða rennir ágætum stoðum undir það. Þegar auknar álögur leiða til samdráttar í sölu og tekjur skila sér ekki í ríkissjóð, þá telst það tæpast til skattalækkunar í hefðbundnum skilningi þessa orðs.
Í umfjöllun af þessu tagi má heldur ekki gleyma gerbreyttri stöðu hagkerfisins eftir bankahrun. Um 10.000 fleiri einstaklingar eru nú atvinnulausir, ríflega 2.000 fyrirtæki hafa orðið gjaldþrota og mörgum til viðbótar hefur verið slitið. Um 7.000 fleiri hafa flutt af landi brott en til landsins. Þetta leiðir vissulega til lægri skattheimtu, þó að skatthlutföll hafi ekkert lækkað. Í pistli Indriða er þessu samhengi snúið á hvolf, að samdráttur skatttekna feli í sér skattalækkun, sem er í besta falli villandi.
...og vinna gegn endurreisn hagkerfisins
Skattkerfi stýra hegðun fólks og fyrirtækja. Í því sambandi er hollt að hugleiða hvað þarf til að hagkerfið nái sér sem hraðast upp úr kreppunni og með hvaða hætti skattkerfið styður við æskileg vinnubrögð.
Í stuttu máli er æskilegt að fólk leggi sig fram í vinnu, sýni framtakssemi og sjálfsbjargarviðleitni, skapi verðmæti og taki hóflega áhættu með því að stofna til atvinnurekstrar og búi öðrum um leið ný og áhugaverð störf. Við viljum að fólk og fyrirtæki haldi neyslu áfram og tekjum „ofanjarðar", fjárfesti í húsnæði og atvinnutækjum og velji að búa áfram á Íslandi. Að lokum er æskilegt að fyrirtæki haldi fólki áfram í vinnu, ráði í ný störf og velji Ísland áfram fyrir uppbyggingu starfsemi og sem skattalega lögsögu.
Vandinn sem nú blasir við er að hvatarnir sem breytt íslenskt skattkerfi býr fólki og fyrirtækjum eru orðnir verulega óheilbrigðir uppbyggingu og endurreisn hagkerfisins og vinna gegn öllu ofangreindu. Hærri jaðarskattar á tekjur einstaklinga og stórauknar álögur á fyrirtæki vinna gegn framtakssemi, fjárfestingu og þátttöku í atvinnurekstri. Á þessu öllu er þó mikil þörf til að koma hagkerfinu úr þeirri kreppu sem nú ríkir.
Raunveruleikinn skiptir mestu
Sannleikanum verður hver sárreiðastur, sem kann að skýra viðbrögð Indriða í áðurnefndum pistli. Skattar hafa hækkað í þeim skilningi sem skiptir fjölskyldur og fyrirtæki raunverulegu máli. Það finna allir á eigin skinni og er vissulega áhyggjuefni. Meira áhyggjuefni er þó að þeir sem mestan þátt eiga í endurhönnun skattkerfisins, þar á meðal núverandi ráðgjafi fjármálaráðherra í skattamálum, skuli vera svo lítt tengdir raunveruleika heimila og fyrirtækja að þeir skilja ekki áhrif skattabreytinga á starfsemi þeirra og á umsvif í hagkerfinu og telja að skattar á Íslandi hafi lækkað.
Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.