Viðskiptaráð Íslands

Tími hugmyndafræði eða hagsýni?

Á næstu dögum verða teknar til umfjöllunar á Alþingi tillögur stjórnvalda um aðgerðir til að brúa fjárlagahallann sem blasir við ríkissjóði. Verkið er ekki öfundsvert. Frekari skuldasöfnun er ekki í  boði og því ætti enginn að velkjast í vafa um mikilvægi þess að vel takist til við hagræðingu í rekstri hins opinbera. Valmöguleikarnir í þessum efnum eru tiltölulega einfaldir; auknar tekjur, minni útgjöld eða hvort tveggja. Það er hinsvegar erfiðara að meta hvers konar útfærsla af þessum leiðum skilar bestum árangri og skoðanir þar skiptar.

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er kynnt til sögunnar blönduð leið, þ.e. að leitast er við að auka tekjur ríkissjóðs samhliða hagræðingu í útgjöldum. Í ljósi þess hve verulega kreppir að er ekki hægt annað en hafa skilning á því að tímabundið þurfi að hækka skatta og í þeim efnum getur enginn vikist undan ábyrgð. Hinsvegar er ljóst að í þeirri blönduðu leið sem stjórnvöld hafa boðað verður mestur þungi lagður á aukna skattheimtu í aðlögun ríkisfjármála, frekar en að áhersla sé á niðurskurð. 

Þetta er umhugsunarefni af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi hafa heimili og atvinnulíf þegar axlað miklar byrðar og aðlagað sinn rekstur með skörpum hætti. Þetta má sjá á samdrætti í einkaneyslu, hruni í fjárfestingu einkaaðila, auknum gjaldþrotum fyrirtækja, nafnlaunalækkunum og meira en 10 þúsund töpuðum störfum á almennum vinnumarkaði. Síðari ástæðan lítur að því að opinber útgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu hafa vaxið verulega á síðustu áratugum og margfalt hraðar hér en hjá flestum öðrum iðnríkjum. Á þessu ári er t.a.m. gert ráð fyrir að heildarútgjöld hins opinbera nemi 57% af landsframleiðslu sem verða þá hæstu hlutfallslegu útgjöld allra OECD-ríkja. Það má því færa sterk rök fyrir að í aðlögun ríkisfjármála ætti frekar að vera svigrúm á útgjaldahlið heldur en skattahlið.

Það er einnig vert að huga að því að í tillögum stjórnvalda er gert ráð fyrir verulega umfangsmiklum breytingum á núverandi skattkerfi. Taka á upp þrepaskipta skattlagningu á launatekjur, virðisaukaskattsþrepum verður fjölgað og vörugjöldum bætt við, nýir og auknir skattar verða lagðir á atvinnufyrirtæki í formi stórhækkaðs tryggingargjalds, orku- og umhverfisskatta og skattur á fjármagnstekjur verður nánast tvöfaldaður. Afar mikilvægt er að vandað sé til jafn viðamikilla breytingum á skattkerfinu og þeim sem til standa.  Í þessum efnum má benda á að innan hagfræða er nokkuð almenn samstaða um að einföld skattkerfi sem byggja á breiðum skattstofnum sem leggjast tiltölulega jafnt á atvinnugreinar séu hagkvæm.  Töluverðar líkur eru á því að umræddar breytingar valdi óæskilegri og ófyrirséðri röskun á umsvifum í hagkerfinu og að skattheimta verði minni en vænst er.

Segja má að markmið boðaðra breytinga á skattkerfinu séu tvíþætt. Annarsvegar er þar leitast við að auka tekjur með skattheimtu og hinsvegar er þeim ætlað að auka á jöfnuð í gegnum tekjutilfærsluáhrif. Ágæt rök má færa fyrir því að erfitt sé að ná báðum þessum markmiðum, því þær hugmyndafræðilegu breytingar sem nú stendur til að gera á annars einföld og skilvirku skattkerfi (sem vissulega er þó ekki gallalaust) geta valdið því að skattheimta verður minni en vænst er. Vænlegra væri að standa vörð um þessa eiginleika og ná fram sambærilegum tekjuauka og stefnt er að með skattahækkunum á núverandi skattstofna. Þannig yrði starfsemi hagkerfisins fyrir sem minnstu raski og líklegt að tekjur ríkissjóðs aukist fyrr með efldum skattstofnum.

Ef gera á grundvallarbreytingar á þeirri hugmyndafræði sem íslenskt skattkerfi byggir á er það ekki ósanngjörn krafa að um þær verði haft víðtækt samráð og veitt verði tækifæri til samfélagslegrar rýni og umræðu um forsendur, framkvæmd og áhrif. Slíkt samráð hefur ekki átt sér stað og ljóst af dagskrá þings að þeir fáu dagar sem af því lifa duga ekki til að bæta þar úr. Af þeim sökum er hætt við að breytingarnar verði vanhugsaðar eða mistakist í útfærslu og skili ekki tilætluðum árangri til að rétta af halla á opinberum fjárhag eða bæta kjör þeirra efnaminni. Þá er betur heima setið en af stað farið.

Í lok árs 2009 verður áherslan að vera á hagsýni, raunsæi og varðstöðu um heildarhagsmuni með það markmið í forgrunni að koma hagkerfinu sem hraðast á réttan kjöl. Við höfum tæpast efni á öðru.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands. Grein birtist í Fréttablaðinu 10. desember sl.

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024