Viðskiptaráð Íslands

Að deila ábyrgð

Endahnútur Svanhildar Hólm í Viðskiptablaðinu 22. desember 2021.

Það er stutt síðan við héldum að það væri farið að rofa til. Þótt smit væru mörg voru innlagnir hlutfallslega fáar. Samanborið við desember 2020 var nýgengið nú í desember um það bil tíu sinnum hærra en innlagnir á spítala og gjörgæslu um það bil þrisvar sinnum færri.

En svo hélt ómíkron innreið sína. Afbrigði sem smitast miklu hraðar en veldur að því er virðist vægari veikindum. Og enn á ný erum við komin á kunnuglegan stað, þar sem takmarkanir eru hertar.

Að öllum líkindum er það ómíkron sem er jólagesturinn á mínu heimili þessi jól. Ég hef ekki fengið það staðfest, en svörin eru að það séu yfirgnæfandi líkur á því. Kynni okkar af þessu afbrigði eru frekar vinsamleg. Það hefur að vísu sett allt jólahald í uppnám en hinn svokallaði sjúklingur ber sig vel og sýnir engin einkenni á fjórða degi einangrunar. Vonandi verða aðrir jafnheppnir.

Ég skil vandann sem yfirvöld standa frammi fyrir. Að þetta afbrigði sé tiltölulega óþekkt enn og sömuleiðis afleiðingar og þess vegna vilji fólk sýna fyllstu varúð. Sennilega er þetta skásti tíminn til þess gagnvart atvinnulífi og skólum, þegar stór hluti allrar starfsemi fer í hægagang vegna hátíðanna.

En við erum öll orðin þreytt á þessu. Viljum passa upp á hvert annað en skiljum kannski ekki alveg hvert planið er. Ég held að það væri til bóta að taka umræðuna um aðgerðir út úr ríkisstjórn og færa hana inn í Alþingi. Það mætti líta til Danmerkur þar sem ríkisstjórnin leggur tillögur sínar fyrir farsóttarnefnd þingsins. Í öllu falli getur ekki verið verra að deila með þinginu ábyrgð og upplýsingum, hleypa fleiri sjónarmiðum að og vonandi gera ákvarðanir gegnsærri og skiljanlegri fyrir okkur öll.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu, 22. desember 2021.

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024