Viðskiptaráð Íslands

Já, ég er óþolandi

Svanhildur Hólm er komin með nýtt áhugamál sem vonandi léttir eitthvað álaginu af íslenskum pennavinum hennar.

Einn morguninn í síðustu viku fékk blaðamaður póst frá mér klukkan 6.40. Ég hafði verið að lesa frétt um fjármálaáætlun og fannst hugtakanotkun ekki nógu skýr svo ég sendi athugasemd á blaðamanninn. Mér kom þetta mál ekkert við, ekki frekar en í ótal önnur skipti sem ég hef sett mig í samband við blaðamann eða ritstjóra þegar mér hefur fundist eitthvað mega betur fara. Oft er ástæðan íslenskt mál, en ég hef líka gert athugasemdir við að konur sem lenda í einhverju séu titlaðar ömmur í fyrirsögnum, þegar atburðurinn hefur ekkert með barnabörnin þeirra að gera, eins og þegar hákarl beit konu einhvers staðar í útlöndum. Ég hef leiðrétt notkun á orðinu billjón, þegar ameríska merkingin hefur slæðst inn í íslenska frétt og þreytist ekki á að benda fólki á að fátt gerist á Mývatni nema maður sé á bát, svo nokkur dæmi séu tekin.

Blaðamaðurinn, sem ég nefndi í upphafi, tók athugasemdinni mjög vel eins og eiginlega allir sem ég hef átt í samskiptum við. Þegar ég var sjálf að vinna í fjölmiðlum þótti mér yfirleitt vænt um ef einhver nennti að hafa fyrir því að segja mér til, en það skiptir vissulega máli hvernig það er gert. Þess vegna held ég líka að það sé skárra að fá tölvupóst á óguðlegum tíma, frá konu í morgunbaði í Vesturbænum, en að vera til dæmis til misgáfulegrar umræðu í spjallhópum á Facebook.

Ég geri mér samt alveg grein fyrir að ég get verið óþolandi, en mér til varnar vil ég nefna að þetta beinist ekki bara að mennskum skríbentum. Ég er nefnilega komin með nýtt áhugamál sem er að senda gervigreindarforritinu ChatGPT leiðréttingar. Vonandi léttir það eitthvað álaginu af íslenskum pennavinum mínum.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 5. apríl 2023

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024