Viðskiptaráð Íslands

Ekki skjóta sendiboðann

Efling segir framlag hins opinbera til nokkurra málaflokka benda til þess að Ísland sé ekki norrænt velferðarríki. En hvað ef við skoðum heildarmyndina?

Nikulás Kópernikus lagði fram sólmiðjukenninguna
Nikulás Kópernikus lagði fram sólmiðjukenninguna í bókinni Um snúninga himintunglanna. Kaþólska kirkjan taldi kenninguna helgispjöll.

Árið 1543 kom bókin Um snúninga himintunglanna út. Nikulás Kópernikus stjörnufræðingur lagði þar fram sólmiðjukenninguna. Jörðin snerist í kringum sólina, en ekki öfugt. Þessi tilgáta mæltist illa fyrir hjá kaþólsku kirkjunni sem aðhylltist bókstafstúlkun Biblíunnar um jarðmiðjukenninguna. Kópernikus var því útmálaður fyrir villutrú.

Nokkrum áratugum síðar, árið 1610, gaf ítalski eðlis- og stjörnufræðingurinn Galíleó Galílei út bókina Sendiboði stjarnanna. Í bókinni færði hann rök fyrir sólmiðjukenningu Kópernikusar. Rannsóknarréttur kaþólsku kirkjunnar tók þetta óstinnt upp og sagði kenninguna fráleita. Galíleó var dæmdur fyrir villutrú og bækur hans sem studdu sólmiðjukenninguna bannaðar.

Í dag vita allir að sólmiðjukenningin er sannleikanum samkvæm, enda lagði breski vísindamaðurinn Isaac Newton fram stærðfræðilega sönnun hennar. Jarðneskar leifar Kópernikusar, sem áður lágu í ómerktri gröf, voru að endingu lagðar í vígða mold með viðhöfn af hálfu kaþólsku kirkjunnar árið 2005.

Galileo Galilei
Galíleó Galílei gaf út bókina Sendiboði stjarnanna árið 1610. Í bókinni færði hann rök fyrir sólmiðjukenningu Kópernikusar og var einnig útmálaður fyrir villutrú.

Er himininn blár?

Fyrir nokkru birti Efling grein í ritinu Kjarafréttum. Niðurstaðan var sú að bein framlög hins opinbera til tiltekinna málaflokka styddu þá ályktun að Ísland væri ekki norrænt velferðarríki, enda væru þau í sumum tilfellum lægri en víðast á Norðurlöndum.

Viðskiptaráð tók þetta til skoðunar og birti í kjölfarið ábendingar um að niðurstöður Eflingar stæðust ekki skoðun. Staðreyndir um velferðarmál á Íslandi og öðrum Norðurlöndum bentu þvert á móti til þess að velferð hér væri gjarnan áþekk eða meiri en þar. Auk þessa færi Efling ekki rétt með fullyrðingar um meintan samdrátt og lág opinber framlög, til dæmis til heilbrigðismála.

Hér eru staðreyndirnar. Þær hafa ekki verið hraktar og tala sínu máli um stöðu velferðarmála á Íslandi:

  • Efnisleg lífskjör á Íslandi eru sambærileg við Norðurlöndin
  • Fátækt er hvergi minni í heiminum en á Íslandi
  • Jöfnuður er mestur á Íslandi meðal Norðurlanda
  • Velferð mælist næstmest á Íslandi af Norðurlöndum
  • Lífeyrisþegar á Íslandi hafa hlutfallslega hærri tekjur m.v. meðaltekjur allra þjóðfélagshópa í hverju landi fyrir sig.

Auk þessa birti Fjármála og efnahagsráðuneyti opinber gögn sem hrekja í öllum meginatriðum niðurstöður Eflingar.

Ný Heilög ritning

Efling tók ábendingar um rangfærslur í Kjarafréttum óstinnt upp. Þau standa þrátt fyrir allt við fyrri fullyrðingar um að Ísland teljist ekki vera norrænt velferðarríki og halda því einnig fram að Viðskiptaráð vaði í villu um hvað felist í hugtakinu. Af málflutningi Eflingar má ráða að aðalatriðið í því mati sé hversu mikla beina aðkomu hið opinbera hafi að velferðarmálum. Aðferðin sé það sem skiptir máli, ekki útkoman og staðreyndir um stöðu velferðarmála því aukaatriði.

Þótt greinarhöfundar setji sig af augljósum ástæðum ekki á stall Kópernikusar eða Galíleós minnir málflutningur Eflingar óneitanlega á viðbrögð kaþólsku kirkjunnar við sólmiðjukenningunni. Í stað Biblíunnar er miðað við kreddur sósíalismans frá miðbiki síðustu aldar. Hugmyndir og stjórnmálastefna sem skiluðu þeim sem á bitnaði helst ömurlegri fátækt og vosbúð. Eini rétti mælikvarðinn á velferð, að mati Eflingar, er hvað ríkið lætur þegnum sínum í té. Annað er villutrú.

Hvað er velferðarríki?

Gott og vel. Skoðum betur þýðingu orðsins velferðarríki. Íslensk nútímamálsorðabók skilgreinir velferðarríki sem þjóðfélag sem byggir á hugmyndum um almenna velferð borgaranna.

Samkvæmt alfræðiorðabókinni Britannica er velferðarríki þjóðfélagsskipulag þar sem ríkið eða vel skilgreint net samfélagsstofnana spilar lykilhlutverk við vernd og viðgang efnahags- og félagslegrar velferðar íbúa sinna. Grunnhluti velferðarríkja eru almannatryggingar.

Þessar skilgreiningar eru almennt viðurkenndar og falla að daglegum málskilningi. Þær eiga augljóslega vel við Ísland. Hér er velferð óvíða meiri.

Hvernig er velferðarríki Eflingar?

Í þágu umræðunnar skulum við setja á okkur gleraugu Eflingar og gefa okkur að þessar skilgreiningar séu rangar, eða í það minnsta ófullnægjandi. Þess í stað skulum við nota skilgreiningu Eflingar á velferðarríki.

Greinarhöfundar taka sér náðarsamlegast leyfi til að skilgreina fyrir lesendur velferðarríki frá sjónarhóli Eflingar. Samtökunum er að sjálfsögðu velkomið að leiðrétta skilgreiningu höfunda ef hún stenst ekki. Í þeim skilningi er velferðarríki samfélag þar sem stofnanir hins opinbera tryggja með beinni aðkomu sinni framlög til málaflokka sem auka og viðhalda velferð almennings, svo sem til heilbrigðis-, mennta-, húsnæðis-, og lífeyrismála auk stuðnings við barnafjölskyldur.

Kirsuberjatínsla

Efling fær því í þágu umræðunnar að heyja baráttuna á eigin vígvelli og eftir eigin reglum. Í umræddri grein eru skoðaðir tilteknir málaflokkar og í sumum tilfellum aðlagað svo falli best að ályktun Eflingar. Á góðri íslensku kallast þetta kirsuberjatínsla. Hvað ef við skoðum fleiri þætti?

Opinber útgjöld Norðurlanda til velferðarmála
Framlög hins opinbera á Íslandi til velferðarmála eru áþekk öðrum Norðurlöndum.

Eins og sjá má á þessum samanburði eru opinber útgjöld til þessara málaflokka ýmist hærri eða lægri hér en á öðrum Norðurlöndum. Einu ályktanirnar sem er í raun hægt að draga, sé miðað við skilgreiningu Eflingar á velferðarríki, eru þær að opinber framlög til helstu velferðarmála eru heilt á litið frekar sambærileg við önnur Norðurlönd, auk þess að kerfin eru ólík innbyrðis.

Samanburð á lífeyriskerfum Norðurlanda þarf að skoða í því samhengi að kerfin eru í grundvallaratriðum ólík. Ítarlegri umfjöllun um þennan mun og nærtækan samanburð er að finna í upphaflegri grein Viðskiptaráðs. Niðurstaðan er í öllu falli sú að lífeyrisþegar á Íslandi hafa það síst verra en á öðrum Norðurlöndum.

Efling heldur því sem fyrr segir fram að opinber útgjöld til heilbrigðismála sem hlutfall af landsframleiðslu séu bæði lægri á Íslandi miðað við Norðurlönd auk þess sem þau hafi dregist saman. Hvað varðar þróun á framlögum hins opinbera til heilbrigðismála hafa þau hækkað um 145 þ. kr. á ári á föstu verðlagi frá 2017, eða um 12%. Árleg rekstrarframlög til Landspítala hafa hækkað um 28 ma. kr. og á sama tímabili hefur 90 ma. kr. verið varið til fjárfestinga í heilbrigðiskerfinu.

Fullyrðingar Eflingar um heilbrigðismál eru því beinlínis rangar auk þess sem dæmi úr grein samtakanna um barnabætur er villandi og sett fram til þess að draga athyglina frá heildarmyndinni. Stuðningur við barnafjölskyldur á Íslandi er hærri en meðaltal annarra Norðurlandaþjóða.

Kirsuberjatínsla
Efling velur aðeins þær tölur sem henta sögunni í samanburði á stöðu velferðar á Norðurlöndum.

Hvað með tekjutilfærslurnar?

Efling telur sig hafa fundið auman blett á málflutningi Viðskiptaráðs með því að benda á að jöfnuður á Íslandi sé ekki síst öflugri verkalýðshreyfingu að þakka. Þessi ábending er hárrétt. Viðskiptaráði þykir engin ástæða til að gera lítið úr áhrifum verkalýðshreyfingarinnar á jöfnuð.

Við þetta er þó tvennt að athuga. Hin hliðin á þeim peningi er sú að sökum mikils jöfnuðar er fjárhagslegur ávinningur menntunar á undanhaldi og er hvergi minni en á Íslandi. BHM, regnhlífarsamtök fag- og stéttarfélaga háskólamenntaðs fólks á Íslandi, hafa bent á þetta og barist fyrir launahækkunum sinna félagsmanna með vísan til þess að menntun verði metin til launa. Á mannamáli þýðir það aukinn ójöfnuður.

Auk þess má aldrei missa sjónar af því að það eru fyrirtækin í landinu sem bæði greiða há laun launafólks á Íslandi, auk skattanna sem hið opinbera notar til velferðarmála og launagreiðslur starfsfólks hins opinbera. Fyrirtækin eru fjöregg þjóðarinnar og undirstaða velferðar.

Að þessu sögðu er það rétt athugað hjá Eflingu að tekjutilfærslur séu heilt á litið lægri hér en á Norðurlöndum. Í grein samtakanna er fundið að þessu. Tekjutilfærslur eru tól hins opinbera til að stuðla að auknum jöfnuði. Fátækt á Íslandi er sú minnsta í heiminum. Jöfnuður er óvíða meiri. Er Efling að mælast til þess að auka jöfnuð enn frekar og hvert er þá endamarkmiðið? Jöfn laun allra, óháð starfi, menntun og reynslu?

Staðreyndir eru staðreyndir

En þetta er auðvitað allt í góðu lagi. Efling má að sjálfsögðu halda þessu áfram. Samtökin gera það þá bara vitandi að málflutningurinn stenst ekki nánari skoðun. Helsti kostur staðreynda er sá að þær eru einmitt það, staðreyndir. Í þessu tilfelli er Viðskiptaráð bara sendiboðinn.

Velferð lifir áfram góðu lífi meðal íslensku þjóðarinnar og staðreyndum um velferðarmál verður ekki haggað sama hvað tautar og raular á skrifstofu Eflingar, nema ef ske kynni að stjórnmálaskoðanir samtakanna yrðu of áhrifamiklar á Íslandi. Eintak af bókinni Raunvitund eftir Hans Rosling bíður þess að verða vitjað af höfundum Kjarafrétta Eflingar á skrifstofu Viðskiptaráðs.

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs

Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024