Viðskiptaráð Íslands

Færa á námsmannaleyfi til samræmis við Norðurlönd

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar drög að frumvarpi sem felur í sér einföldun á afgreiðslu atvinnuleyfa og breytingar á reglum um dvalarleyfi námsmanna. Í umsögn ráðsins er lögð áhersla á mikilvægi samræmingar og skilvirkni í stjórnsýslu útlendingamála, afnám óþarfa umsagnarskyldu og skýrari ramma um réttindi námsmanna. Þá hvetur ráðið stjórnvöld til að endurskoða fjárhagslegan stuðning við nemendur utan EES-svæðisins.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar drög að frumvarpi um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Breytingarnar fela í meginatriðum í sér einföldun á afgreiðslu atvinnuleyfa og breytt fyrirkomulag atvinnuþátttöku og dvalarleyfisskilyrða námsmanna. Viðskiptaráð styður þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu og hvetur stjórnvöld til að gera enn frekari umbætur á umgjörð námsmanna utan EES-svæðisins þegar kemur að námi hérlendis.

Samræming og aukin skilvirkni í stjórnsýslu jákvæð breyting

Viðskiptaráð fagnar umbótum í stjórnsýslu útlendingamála, þar sem færa á afgreiðslu og útgáfu tímabundinna atvinnuleyfa frá Vinnumálastofnun til Útlendingastofnunar og færa kæruleið vegna tímabundinna atvinnuleyfa til kærunefndar útlendingamála. Eðlilegt er að öll stjórnsýsla útlendingamála heyri undir eina stofnun og að úrskurðir séu kæranlegir til einnar nefndar, svo sérþekking í málaflokknum sé varðveitt og afgreiðsla mála verði skilvirk.

Jafnframt styður ráðið að umsagnarskylda stéttarfélaga verði felld á brott og tekin verði upp heimild til að leita umsagna komi upp álitamál um skilyrði ráðningar­samnings og launakjör útlendings. Hér er verið að fella á brott óþarft íþyngjandi ákvæði um útgáfu atvinnuleyfa og þannig verið að auka skilvirkni við útgáfu slíkra leyfa.

Hverfa ætti frá stuðningi við nemendur utan EES-svæðisins

Breytingar á fyrirkomulagi um útgáfu dvalar- og atvinnuleyfis til námsmanna er til bóta að mati Viðskiptaráðs. Eðlilegt er að gera kröfu um fullnægjandi námsárangur við endurnýjun dvalarleyfis og jafnframt að einstaklingar hafi a.m.k. lokið gráðu á bakkalár stigi til að hljóta dvalarleyfi í kjölfar útskriftar. Þá er einnig jákvætt að áform séu uppi um að fella á brott rétt námsmanna til fjölskyldusameiningar við foreldri sem er 67 ára eða eldri.

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að hverfa frá fjárhagslegum stuðningi við nemendur frá löndum utan EES-svæðisins í gegnum háskólakerfið. Innan EES-svæðisins ríkir gagnkvæmur réttur til þess að sækja nám milli landa og njóta sömu réttinda og ríkisborgarar heimalandsins. Ekki standa samskonar rök til þess að nemar utan EES-svæðisins njóti sömu réttinda til niðurgreidds náms og nemar innan EES-svæðisins, í ljósi þess að rétturinn er ekki gagnkvæmur.

Að mati Viðskiptaráðs eiga nemar sem koma frá löndum utan EES-svæðisins að bera sjálfir þann kostnað sem hlýst af þeirra háskólanámi hérlendis. Slík breyting myndi girða fyrir að nemendur frá löndum utan EES-svæðisins njóti hárra niðurgreiðslna úr ríkissjóði. Slík breyting myndi jafnframt færa fyrir­komu­lagið nær því sem þekkist á öðrum Norðurlöndum, þar sem nemendur frá löndum utan EES-svæðisins eru jafnan rukkaðir um skólagjöld.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024