Viðskiptaráð Íslands

Fasteignaskattar og hnignun hornskrifstofunnar

Gæti verið að í framtíðinni verði stór hluti vinnu sumra unninn inni á heimilum? Verður íbúðarhúsnæði þá í einhverjum skilningi orðið atvinnuhúsnæði?

Ekki líður á löngu þar til sveitarstjórnarkosningar fara fram á Íslandi og þessa dagana eru stjórnmálaflokkarnir í óðaönn að tefla fram sínu sterkasta fólki til að manna framboðslista. Líklega verða klassísk sveitarstjórnarmál í forgrunni í aðdragandanum; skuldastaða, sameining sveitarfélaga, grunnþjónusta á borð við leikskóla og grunnskóla, velferðarþjónusta og fasteignamál, ekki síst lóðamál.

Tekjuöflunin er síðan sérkapítuli, en möguleikar sveitarfélaga til tekjuöflunar eru takmarkaðir sem kunnugt er og bundnir í lög. Í lögum um tekjustofna sveitarfélaga er fjallað um fasteignaskatta sem einn möguleika sveitarfélaga til að afla sér tekna. Þannig er mælt fyrir um þrjá flokka sem má skipta í íbúðarhúsnæði (allt að 0,5% af fasteignamati), opinberar byggingar (1,32% af fasteignamati) og atvinnuhúsnæði (allt að 1,32% af fasteignamati).

Um þessi mál var rætt var á Skattadegi Viðskiptaráðs, Samtaka atvinnulífsins og Deloitte í janúar sl., en þar kom meðal annars fram að fasteignaskattar sveitarfélaga á atvinnuhúsnæði væru ekki aðeins háir í sögulegu samhengi, heldur einnig í samanburði við nágrannaríkin. Hvergi á Norðurlöndum væru tekjur hins opinbera af fasteignaskatti jafnhátt hlutfall af verðmætasköpun og á Íslandi, en hér á landi nemur hlutfall fasteignaskatta af vergri landsframleiðslu um 0,9%. Samkvæmt Sambandi íslenskra sveitarfélaga stóð atvinnuhúsnæði undir 55,7% af álögðum fasteignaskatti árið 2020. Fasteignaskattur er um 14% af heildartekjum sveitarfélaga og 18% af skatttekjum þeirra. Sem stendur leggjast fasteignaskattar u.þ.b. sexfalt þyngra á atvinnuhúsnæði en íbúðarhúsnæði. Því er ljóst að skattar á atvinnuhúsnæði vega þungt í tekjuöflun þeirra.

Með hliðsjón af samkeppnishæfni og langtímahag Íslands í alþjóðasamkeppni er mikilvægt að stigið sé varlega til jarðar í skattheimtu, heilt á litið. Mikilvægt er að þeir stjórnmálamenn sem ná völdum í vor hafi þetta í huga enda blómga fyrirtæki samfélög og gefa af sér innan marka sveitarfélaganna. Með réttu ættu þau að keppast um fyrirtæki eins og íbúa.

Fjarvinna til framtíðar?

Líklega mun heimsfaraldurinn, sem nú virðist vera að líða undir lok (og flestir vilja sem minnst vita af), ekki eiga sviðið í kosningaumræðunni, en hann mun aftur á móti hafa margvísleg áhrif til framtíðar. Einhverjir hafa til dæmis velt því fyrir sér hvort fjarvinna muni aukast til muna í framhaldinu og þess sjást mögulega einhverjar vísbendingar. Um þetta er reyndar vandi að fullyrða, en verði raunin þessi mun þróunin vafalaust eiga marga snertifleti við stjórnmálin líkt og flest annað. Til dæmis gæti aukin fjarvinna kallað á nýja nálgun í vinnumarkaðsmálum, en því má einnig velta fyrir sér hvernig fasteignaskattar horfa við í þessu sambandi. Verði miklar breytingar gætu mörkin milli íbúðar- og atvinnuhúsnæðis mögulega orðið óljós á næstu árum.

Gæti verið að í framtíðinni verði stór hluti vinnu sumra unninn inni á heimilum? Munu fleiri vinna heima, hvort sem það er hluti úr degi, einhverjir dagar vikunnar eða bara alls ekki? Í lögum um tekjustofna er gert ráð fyrir tiltölulega skýrri aðgreiningu atvinnu- og íbúðarhúsnæðis með tilliti til skattheimtu. Verður íbúðarhúsnæði þá í einhverjum skilningi orðið atvinnuhúsnæði?

Viðskiptaráð hefur áður bent á að misræmi í skatthlutföllum eftir tegund húsnæðis eigi við mjög veik rök að styðjast. Sem dæmi má nefna að útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði eru felld undir íbúðarhúsnæði, en ekki atvinnuhúsnæði. Í ljósi þess vægis sem skattlagning atvinnuhúsnæðis hefur í fjármálum sveitarfélaga má því velta því fyrir sér hvort endurskoðunar sé þörf á næstu árum í sambandi við fasteignaskatta og mögulega sé skynsamlegt að samræma gjaldhlutföllin alfarið milli tegunda húsnæðis. Á Skattadeginum kom þessi skoðun Viðskiptaráðs fram, en þar var því til dæmis einnig velt upp hvort skattleggja mætti lóðir í stað bygginga að fordæmi Dana og að bagalegt væri hve mikil áhrif utanaðkomandi sveiflur gætu haft á fasteignaskatta, en skattstofn þeirra byggist á markaðs- eða leiguverði.

Í öllu falli er kappsmál að rýna vel í stefnumál flokkanna eins og þau birtast í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna, meðal annars með tilliti til skatta og annara álaga. Þessi atriði, og fleiri, skipta höfuðmáli fyrir atvinnurekendur og aðra þá sem eiga í viðskiptum og stuðla að verðmætasköpun.

Jón Birgir Eiríksson, sérfræðingur á lögfræðisviði Viðskiptaráðs Íslands.

Greinin birtist fyrst í ViðskiptaMogganum, 9. mars 2022.

Tengt efni

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024

Eftirlitsmisskilningur Þórunnar

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess …
31. ágúst 2024