Viðskiptaráð Íslands

Hlutverk Viðskiptaráðs í breyttum heimi

Síðustu 100 ár hefur íslenskt þjóðfélag og heimurinn allur gengið í gegnum gagngerar breytingar, sem lúta að efnahagslegum, tæknilegum og samfélagslegum umbótum. Á þeim 100 árum, frá því Ísland varð fullveldi, hefur Viðskiptaráð Íslands verið virkur og vonandi mikilvægur þátttakandi í umræðum og átökum um breytta skipan íslensks efnahagslífs. Viðskiptaráð eru frjáls félagasamtök og hlutverk þess hefur í raun lítið breyst á þessum 100 árum þó áherslur hverju sinni mótist af þróun samfélagsins. Til gamans má geta þess að heimildamynd um 100 ára sögu ráðsins, Hugvit leyst úr höftum, verður frumsýnd í RÚV 23. janúar næstkomandi. Segir heiti myndarinnar sína sögu einnig. Áherslur hafa einkum verið að stuðla að hagfelldu rekstrar- og skattaumhverfi, lágmarka opinber afskipti, auka samkeppnishæfni landsins og efla menntun á sviði viðskipta og nýsköpunar. Jafnframt er ráðið nátengt 13 millilandaráðum, sem eru vettvangur alþjóðlegra við­skiptatengsla. Ef litið er til nýjustu umsagna og greina sem ráðið hefur sent frá sér má glöggt sjá að áherslur þessar hafa ekki breyst í grundvallaratriðum; Þokukennd skattastefna stjórnmálaflokkanna, Sívaxandi fjöldi skattbreytinga, Nauðsyn þess að samkeppnisyfirvöld láti af þröngri skilgreiningu á íslenska markaðnum, Ótímabær boðun ráðstöfunar úr óstofnuðum þjóðarsjóði, Kjararáð stuðli enn einu sinni að uppnámi á vinnumarkaði, o.fl. greinar.

Ný heimsmynd viðskipta

Heimsmynd okkar í dag er þó töluvert frábrugðin þeirri sem þekktist bara fyrir um 20 árum. Alþjóðavæðing og tækniframfarir hafa gjörbreytt allri samkeppni og landamæri nánast horfin nema að nafninu til. Ísland er orðið hluti af heimsmarkaðnum, tækifæri í við­skiptum við útlönd að aukast – en á sama tíma harðnar samkeppnin hér heima. Sama gildir um aðgang að hæfu starfsfólki. Breytingar á vinnumarkaði þar sem kröfur fyrirtækja um aukna kunnáttu starfsmanna þvert á flókna gagnavinnslu og forritun sem og „mýkri“ færni svo sem samskiptafærni og skrif, má út hefðbundin starfsheiti líkt og Lilja Dögg Jónsdóttir hagfræðingur reifaði í Vísbendingu í upphafi árs. Ungt fólk hikar ekki við að sækja vinnu erlendis ef tækifæri og kjör eru betri þar og sama gildir um fyrirtækin sem líta í auknum mæli erlendis í leit að hagfelldara rekstrarumhverfi. Hvatar til að byggja upp og halda í hæfileikaríkt fólk – hvort sem það er af íslensku eða erlendu bergi brotið, ásamt því að þróa og halda í hugvitsdrifin fyrirtæki er forsenda þess að hér verði sjálfbær hagvöxtur til lengri tíma. Þarna telur Viðskiptaráð að þurfi að gera enn betur.

Lítum upp úr músarholunni

Þó við Íslendingar teljum okkur standa öðrum þjóðum framar í mörgu og vera með puttann á púlsinum þegar kemur að framförum á ýmsum sviðum, verður að viðurkennast að við erum enn fámennt eyland, og oft erum við afar upptekin af því sem gerist í nærumhverfinu. Því er bráðnauð­ synlegt að hingað komi reglulega til lands einstaklingar sem hreyfa við okkur og stuðla að því að við horfum víðar og til lengri tíma.

Á haustmánuðum 2017 bauð Viðskiptaráð Íslands til opins fyrirlestrar Dominic Bartons, forstjóra McKinsey & Company. Af þúsund gestum sem mættu og níu þúsund sem horfðu á streymið voru margir þeirrar skoðunar að fyrirlesturinn hefði verið tímamótaupplifun – „einn merkasti fyrirlestur sem hér hefur verið haldinn, jafnvel í áratugi“ svo ég vitni í Styrmi Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins. Dominic Barton er maður sem lifir og hrærist í hringiðu þeirra miklu og hröðu breytinga sem eru að verða í heiminum og vakti marga svo sannarlega til umhugsunar.

Nýjar leikreglur viðskiptalífsins

Þó markmið Viðskiptaráðs sé að huga að hagfelldu viðskiptaumhverfi fyrirtækjanna í landinu er hlutverk okkar einnig að vera stefnumótandi samtök sem horfa til framtíðar og ýta á eftir nauð­synlegum framfaraskrefum. Þess vegna leitum við m.a. út fyrir landsteinana til að fá leiðbeinandi hugmyndir og sækja okkur þekkingu. Á Viðskiptaþingi VÍ 2018, sem haldið verður þann 14. febrúar næstkomandi bjóðum við hingað einum þekktasta ráðgjafa og prófessor í stafrænum tæknibreytingum, Dr. Andrew McAfee, frá MIT. Viðskiptaráð hefur beðið hann um að greina stöðu smáríkja sem Íslands með tilliti til þessara breytinga og til að benda á hvaða tækifæri felast í slíkum breytingum fyrir okkar einstaka land. Jafnframt bjóðum við á þingið einum þekktasta frumkvöðli Danmerkur, Tommy Ahlers, sem situr í „tæknirofráði“ (d. Disruptionrådet) dönsku ríkisstjórnarinnar. Ahlers mun ræða um hvernig Danmörk, sem er land án nokkurra auðlinda, mótar í dag framtíðarstefnu í efnahags-, mennta- og atvinnumálum.

Farsæl framtíð íslensks við­skiptalífs er háð því að við tökum breytingum fagnandi og náum að fanga tækifærin sem í þeim felast. Við verðum að læra af þeim sem fremst standa og sækja sjálf fram í breyttum heimi. Storkum okkar íhaldssömu gildum og látum ekki óþarfa pólitík – í hvaða formi sem hún birtist – halda aftur af nauðsynlegum breytingum. Tæknin er að endurskrifa umgjörð og inntak viðskiptalífsins. Sjálfstýring er ekki val.

Höfundur er framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024