Viðskiptaráð Íslands

Ítalska framsóknarleiðin

„Mælistika sem leggja þarf á skatta er hvort þeir séu góð hugmynd til langs tíma. Pólitískar keilur í formi skattahækkana falla ekki í þann flokk. Og ítölsk efnahagsstjórn er aldrei góð hugmynd.“

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Hvalrekaskattar eru nú sérstakt hugðarefni framsóknarmanna, sem vilja skattleggja banka „til að koma til móts við heimilin“ og „ná verðbólgunni niður“. Undirliggjandi virðast annars vegar vera áhyggjur af stöðu íbúðalána, en það virðist hafa farið fram hjá áhugamönnum um þetta mál að nú þegar eru til leiðir til að koma til móts við skuldsett og tekjulág heimili. Ein þeirra er sérstök ríkisleið, vaxtabótakerfið. Þótt meginreglan í því sé að bætur séu greiddar einu sinni á ári, eftir á, er hægt að sækja um fyrirframgreiðslu ársfjórðungslega. Svo hafa bankarnir lýst því yfir að þeir séu tilbúnir til að koma til móts við skuldara meðan vaxtaskotið gengur yfir og ef allt um þrýtur er Umboðsmaður skuldara, stofnun sem komið var á fót eftir hrun, enn starfrækt.

Hins vegar virðist þetta eiga að vera einhvers konar aðgerð til að bregðast við efnahagsástandinu og verðbólgu. Það er reyndar vandséð hvernig það vinnur gegn verðbólgu að láta stjórnmálamenn hafa meira fé til að setja í ríkisútgjöld. Svo er vísað til þess að popúlistastjórn Giorgiu Meloni á Ítalíu hafi nýverið lagt 40% hvalrekaskatt á banka. Sú ákvörðun leiddi til þess að hlutabréf í ítölskum fjármálafyrirtækjum hríðféllu. Ef ríkið vill rýra eign sína í bönkunum, eign sem það hefur meðal annars lýst yfir að það hyggist selja, þá er þetta ein leið til þess. Þetta getur líka verið leið til þess að auka vaxtamun og draga enn úr hagkvæmni bankakerfisins, sem þegar greiðir hlutfallslega meira til ríkisins vegna sértækra skatta en hvalrekaskatti Meloni er ætlað að skila.

Mælistika sem leggja þarf á skatta er hvort þeir séu góð hugmynd til langs tíma. Pólitískar keilur í formi skattahækkana falla ekki í þann flokk. Og ítölsk efnahagsstjórn er aldrei góð hugmynd.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Birtist fyrst á vb.is 10. ágúst og í Viðskiptablaðinu 11. ágúst

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024