Svanhildur Hólm skrifar um úttekt Viðskiptaráðs á umsvifum hins opinbera í atvinnurekstri
Í síðustu viku birti Viðskiptaráð úttekt á umsvifum hins opinbera í atvinnurekstri. Reksturinn er vissulega fjölbreytilegur, allt frá því að ríki eða sveitarfélög bregðist við markaðsbresti yfir í að vera einfaldlega í samkeppni á markaði þar sem eru engin rök fyrir því að eftirláta ekki einkaaðilum sviðið. Í síðara tilvikinu mætti nefna ÁTVR eða Malbikunarstöðina Höfða, sem er í eigu Reykjavíkurborgar en í því fyrra ýmsar menningarstofnanir sem telja má að ekki sé rekstrargrundvöllur fyrir án atbeina hins opinbera. Þarna á milli, á mörkum samkeppnisbrests og samkeppni fellur til dæmis Pósturinn, sem ber út póst á svæðum sem margir gætu hugsað sér að sinna, en líka þar sem ólíklegt er að nokkurt einkafyrirtæki myndi starfa af sjálfsdáðum þótt það ætti kost á því.
Hver er staðan?
Atvinnurekstur hins opinbera nær yfir rúmlega tuttugu atvinnugreinar hjá fimmtíu ólíkum rekstraraðilum. Stöðugildi fyrirtækja í opinberum atvinnurekstri voru rúmlega 7.700 talsins í lok árs 2020, eða tæplega 14% af heildarstöðugildum hins opinbera. Úttekt Viðskiptaráðs leiðir í ljós að stöðugildum hefur jú fækkað frá 2016, um 3,5%, en þegar viðskiptabankarnir eru undanskildir kemur í ljós að annars staðar í atvinnurekstri ríkisins hefur stöðum fjölgað um 2,6%. Þar sem markaðsbrestur ríkir, og því ekki um neitt aðhald frá neinskonar samkeppni að ræða, hefur þeim svo fjölgað mest, eða um alls 6,4%.
Ef horft er til hins opinbera í heild, einnig stofnana og sveitarfélaga, hefur stöðugildum fjölgað um 14% frá 2016 til 2020. Þetta gerist á sama tíma og landsmönnum fjölgaði um innan við 10% og störfum fækkaði um 1% á einkamarkaði. Vissulega erum við að horfa á vinnumarkað á tímum heimsfaraldurs, en þessi þróun á einkamarkaði í átt til fækkunar starfa var hafin löngu fyrir faraldur. Þar hafa atvinnurekendur brugðist við hærri launakostnaði með því að hagræða og sjálfvirknivæða þau störf sem unnt er, en hið opinbera virðist hafa farið varhluta af þeirri þróun, um leið og það leiðir launahækkanir. Frá upphafi faraldurs hafa laun hækkað um 17% hjá hinu opinbera, mun meira en á almenna markaðnum.
Þegar litið er til ESB- og EES-ríkja innan OECD kemur í ljós að einungis eitt ríki greiðir hærra hlutfall þjóðarframleiðslu í opinberan launakostnað en Ísland. Þetta ríki er Noregur, sem greiðir tæplega 16,5% en Ísland kemur fast á hæla þess með rúmlega 16%. Meðaltal ESB-ríkja í OECD er 11%. Allar líkur eru á að hlutfallið verði enn hærra hér á landi í ár þar sem launavísitala opinberra starfsmanna var í ágúst 12% hærri en að meðaltali 2020, auk þess sem opinberum starfsmönnum hefur haldið áfram að fjölga.
En hvaða máli skiptir þetta?
En af hverju er Viðskiptaráð að fjalla um þetta núna? Voru ekki allir sammála um að stefna aðhalds hefði skilað dýpri kreppu eftir efnahagshrunið og að læra ætti af þeim mistökum með því að halda vélinni gangandi með öllum tiltækum ráðum?
Vissulega er gott að búa i samfélagi sem á djúpa vasa ríkissjóðs til að bregðast við þegar bjátar á, en um leið er mikilvægt að gera sér grein fyrir að það er ekki sjálfbært til langs tíma. Þess vegna er alltaf réttur tími til þess að að huga að því hvernig sameiginlegum fjármunum okkar er best varið, hvar megi draga úr sóun í kerfinu og hvar sé einfaldlega gefið að einkarekstur muni skila betri árangri en rekstur ríkisins. Tækifærin eru víða og það má alveg byrja smátt. Þótt kannanir sýni að meirihluti landsmanna sé hlynntur RÚV er þeim sennilega flestum sama þótt Ríkisútvarpið selji ekki auglýsingar. Um leið myndi hagur einkamiðla vænkast og ríkið gæti látið af styrkjum úr ríkissjóði til að bæta stöðu þeirra. Fólki er líka örugglega nokkuð sama hver greiðir bréfbera þess laun, svo lengi sem það fær bréf til sín með skilum. Þess vegna mætti selja Póstinn um leið og ríkið ábyrgist þá grunnþjónustu sem það gerir nú þegar með þjónustusamningi um kostnað vegna svæða sem ekki bera sig. Eða gera samninga við önnur dreifingarfyrirtæki. Svo getur verslunarrekstur varla talist til kjarnastarfsemi hins opinbera og margir betur til þess fallnir að selja vín og aðra áfenga drykki en ríkið. Þetta síðasta atriði hefur ítrekað verið flautað út af í umræðunni, af ýmsum ástæðum og hver sá þingmaður sem leggur til afnám einkaréttar ríkisins á sölu áfengis er sakaður um að hafa ekkert merkilegra um að tala. Samt sem áður hefur fólk getað deilt um þetta í áratugi og og á meðan fjölgar útsölustöðum og starfsfólki (og sumargjöfum) ÁTVR, sem þó var upphaflega sett á fót til að takmarka aðgengi almennings að áfengi. Það gengur bara svona ljómandi vel.
Og til að svara endanlega spurningunni um það hvers vegna Viðskiptaráð telur mikilvægt að ræða þetta: Framleiðnivöxtur er grunnforsenda hagvaxtar og kaupmáttaraukningar og hann er töluvert meiri innan einkageirans en hjá ríki og sveitarfélögum. Það liggur því í augum uppi að ef þessi þjóð vill vaxa til velsældar, eins og sagt er í nýjum stjórnarsáttmála, þarf hún að nýta krafta einkaframtaksins til fulls.
Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, 1. desember 2021.