Viðskiptaráð Íslands

Litið yfir sérkennilegt ár

„Enginn veit neitt, en allir eru að gera sitt besta,“ hefur ósjaldan flogið í gegnum hug manns þetta ár.

Litið yfir sérkennilegt ár

Fyrir nokkrum dögum var ég spurð að því hvað mér fyndist eftirminnilegast frá þessu ári. Þetta er klassísk spurning í lok árs, en það er ekkert klassískt við árið 2020. Í það minnsta vona ég að þetta ástand sem brast á í byrjun góu fari í sögubækurnar sem algjörlega einstakt á okkar tímum. Vissulega hefur heimurinn gengið í gegnum farsóttir áður, en nútíminn hefur verið blessunarlega laus við faraldra af þessari stærðargráðu.

Það leið ekki langur tími frá því að fyrsta tilfellið greindist hér á landi þangað til ljóst var að grípa þyrfti til meiriháttar efnahagsaðgerða. Þarna var ég aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra og fylgdist með þegar fyrstu sviðsmyndirnar voru dregnar upp. Þær svartsýnustu gerðu ráð fyrir að það versta gengi yfir með haustinu og þær bjartsýnustu að sumarið yrði þokkalegt. Fljótlega varð sú versta að þeirri bestu og viðspyrnuferlarnir breyttust úr V-i í U og svo Nikemerkið. Hvar þeir standa akkúrat núna er óvíst, en vonandi bjargar bóluefnið okkur frá W eða L.

Að gera meira en minna

Það var algjör eining innan ríkisstjórnar um að draga þyrfti lærdóm af hruninu og gera frekar meira en minna til að efla viðnámsþrótt atvinnulífsins, tryggja framfærslugetu fólks og stytta atrennuna að næsta hagvaxtarskeiði.

Fyrsti aðgerðapakkinn leit ljós 21. mars og maður fann hvernig margir vörpuðu öndinni aðeins léttar. Það átti greinilega að stíga fast inn í ástandið. En þetta margumrædda ástand kallaði fljótt á frekari aðgerðir og mánuði síðar voru nýjar kynntar til sögunnar – og svo fylgdu enn fleiri í kjölfarið. Ýmsar þeirra hafa orðið bitbein af mismunandi ástæðum. Mikil umræða varð í upphafi um hlutabætur, brúarlánin þóttu ekki nógu vel útfærð og svo fannst sumum illt að ríkið styddi fyrirtæki til að segja upp fólki. Síðastnefnda úrræðið var samt sem áður talið geta gegnt lykilhlutverki við að forða því að fjöldi fyrirtækja yrði gjaldþrota við það eitt að standa skil á greiðslum á uppsagnarfresti. Afleiðing þess yrði veikari viðspyrna þegar birti til.

En það fer enginn í grafgötur með það að þrátt fyrir öll þessi úrræði hefur ýmislegt þurft undan að láta. Atvinnuleysi er í sögulegum hæðum og þvi er spáð að við náum ekki fyrra framleiðslustigi fyrr en eftir tvö til þrjú ár. Ferðaþjónustan og afleiddar greinar hafa orðið fyrir miklum búsifjum, en eins og Viðskiptaráð benti á í umfjöllun sinni fyrir stuttu nær samdrátturinn til allra atvinnugreina, nema veitustarfsemi og hins opinbera.

Vinnumarkaðurinn vó salt um tíma í haust þegar stefndi í uppsögn kjarasamninga, enda töldu vinnuveitendur forsendur þeirra brostnar. Stjórnvöld stigu enn á ný inn í aðstæður og lofuðu að lækka tryggingagjald til að mæta launahækkunum á nýju ári og málum var bjargað fyrir horn. Það verður samt ekki litið framhjá því að valið stendur að einhverju leyti á milli fleiri starfa eða hærri launa, en eins og kemur fram í áðurnefndri umfjöllun Viðskiptaráðs hefði mátt halda nærri 15 þúsund manns á launaskrá fyrir þær launahækkanir sem komið hafa til framkvæmda einungis á þessu ári. Til að setja þá tölu í samhengi nemur hún um 75% einstaklinga á almennum atvinnuleysisbótum í nóvember.

Að finna fyrirsjáanleika í óvissunni

„Enginn veit neitt, en allir eru að gera sitt besta,“ hefur ósjaldan flogið í gegnum hug manns þetta ár. Vissulega vita ýmsir ýmislegt, en oft hefur verið erfitt að sjá í gegnum kófið. Tölfræðingar og faraldursfræðingar hafa lagst á eitt um að reyna að sjá fyrir þróun farsóttarinnar eins og hægt er og hagfræðingar og aðrir markaðsspekúlantar rýna í efnahagsmálin.

Ég held að enginn geri þá kröfu að sett sé fram ófrávíkjanleg og tímasett stefna um viðbrögð, en þegar það er ekki hægt að bjóða upp á vissu, má samt sem áður reyna við ákveðinn fyrirsjáanleika. Það er það sem atvinnulífið hefur undanfarið beðið um í meira mæli. Þangað til bólusetning við veirunni verður almenn, má búast við ýmsum takmörkunum og það er mikil áskorun fólgin í því að reka fyrirtæki við slíkar aðstæður. Skýr og skiljanlega skilaboð, með hæfilegum fyrirvara, eru því nauðsynleg.

Nýjustu breytingar svöruðu sem betur fer að einhverju leyti óskum verslunarinnar, á mikilvægum tíma, þar sem tekin voru upp fermetraviðmið í stað algildrar og óskiljanlegrar fjöldatakmörkunar. Mér þótti í það minnsta skrýtið að fara úr lítilli matvörubúð þar sem voru tugir manna yfir í mörghundruð fermetra raftækjabúð með innan við tuttugu viðskiptavini, í tvískiptu rými.

Batinn tekur tíma

Það má sennilega þakka fyrir að árið 2020 skyldi ekki vera kosningaár í ofanaálag við allt annað, enda skiptir pólitískur stöðugleiki máli í þrengingum sem þessum. En á næsta ári verður kosið og vonandi berum við gæfu til að njóta áfram þeirrar samstöðu sem ríkt hefur frá upphafi faraldursins, um að auka ekki álögur á fólk og fyrirtæki. Það kemur líka að því að ríkisvaldið, sem hefur gegnt mikilvægu hlutverki við að skapa varnir, vernd og viðspyrnu, þurfi að stíga til baka. Viðbrögð þess og úrræði hafa skipt miklu við að draga úr skellinum, en þau inngrip eru ekki sjálfbær til langs tíma. Nú þarf að treysta samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, leggja áherslu á sanngjarnt og hvetjandi rekstrarumhverfi og gera landið um leið að spennandi kosti fyrir erlenda fjárfestingu.

Fréttir um að fyrstu skammtarnir af bóluefninu komi til landsins strax um áramótin hafa glætt vonir um að endalok faraldursins nálgist. Um leið er ljóst að höggið sem kórónuveiran hefur veitt okkur er þungt, í margvíslegum skilningi, og batinn mun taka sinn tíma. Ég leyfi mér samt sem áður að vera bjartsýn á að landið muni rísa um leið og atvinnulífið fær svigrúm til vaxa á ný og skapa störf. Þannig munum við ryðja leiðina út úr kreppunni fyrir íslenskt samfélag.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.
Greinin birtist fyrst í jólablaði Vísbendingar 23.desember 2020.

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024