Viðskiptaráð Íslands

Afnám tolla bætir hag neytenda

Mikilvægt er að skýra ákvæði um yfirráð frumframleiðendafélaga með hlutlægum hætti, tryggja jafnræði milli aðila á markaði og forðast óeðlilegar kvaðir á fyrirtæki. Þetta kemur fram í umsögn Viðskiptaráðs um drög að frumvarpi um breytingar á búvörulögum. Þá hvetur ráðið stjórnvöld til að stuðla að frjálsari samkeppni í landbúnaði, m.a. með afnámi tolla til hagsbóta fyrir neytendur og framleiðendur.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar ofangreind frumvarpsdrög um breytingu á búvörulögum. Í stuttu máli fela drögin í sér að ákvæði 71. greinar búvörulaga verði felld á brott, en þau heimila afurðastöðvum í mjólkuriðnaði að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða. Þó verðiframleiðendafélögum, sem eru félög í eigu bænda, áfram heimilt að eiga með sér samstarf með framangreindum hætti.

Innleiða ætti hlutlæga skýringu á yfirráðum í lögin

Viðskiptaráð gerir athugasemd við 2. grein frumvarpsins, þar sem fjallað er um bein yfirráð yfir frumframleiðendafélögum. Miðað við núverandi drög er Sam­keppnis­eftirlitinu falið að meta hvort um bein yfirráð bænda yfir félaginu sé að ræða eða ekki. Ráðið telur að hér sé Samkeppniseftirlitinu færð óeðlileg heimild til að leggja mat á hver teljist hafa yfirráð í væntanlegum framleiðendafélögum.

Betur færi á því að löggjafinn tæki af skarið um hlutlæga skýringu á því hvað felist í því að bændur hefðu yfirráð yfir viðkomandi félagi. Það mætti t.d. skýra út frá atkvæðamagni bænda í stjórn og þá tilgreint hvaða aðstæður geti orðið til þess að ákveðinn hluti atkvæðamagns leiði ekki til yfirráða bænda í félaginu. Þannig mætti tryggja að allir sætu við sama borð og að félög væru ekki að öllu leyti háð mati eftirlitsstofnunar á því hver hefur yfirráð yfir félaginu.

Mikilvægt að gæta jafnræðis í framleiðslu landbúnaðarafurða

Ráðið hvetur stjórnvöld til að huga að þeim áhrifum sem formfesting undanþágu framleiðendafélaga frá samkeppnislögum getur haft á aðgangshindranir inn á markaðinn. Í frumvarpinu er framleiðendafélögum, þ.e. félögum í eigu bænda, veitt heimild til þess að auka samstarf sín á milli í því skyni að starfa að sameiginlegum hagsmunamálum, þar með talið sölu, vinnslu og markaðssetningu á afurðum sínum, samhliða afnámi 71. greinarinnar.

Þessi tilhögun kann að hindra aðgang annarra aðila, sem ekki eru í eigu bænda, inn á markað með landbúnaðarafurðir. Sem dæmi má nefna að félag sem framleiddi ákveðna mjólkurafurð, sem ekki væri í eigu bænda, mætti ekki eiga í samstarfi við stærri framleiðendafélög um sölu, vinnslu og markaðssetningu, jafnvel þótt að það væri beggja hagur. Á sama tíma væri framleiðendafélagi sem framleiddi sömu vöru heimilt að eiga í samstarfi við stærri framleiðendafélög og er þannig veitt samkeppnisforskot af hálfu löggjafans.

Viðskiptaráð geldur varhug við því að gerður sé greinarmunur á félögum eftir eignarhaldi og félögum í eigu ákveðinna aðila sé veitt sérstök undanþáguheimild í lögum umfram aðra. Ráðið telur tilefni til að meta hvort að slík tilhögun standist jafnræðisreglu áður en lengra er haldið.

Safnskylda óeðlilegt fyrirkomulag

Viðskiptaráð gerir einnig athugasemd við skyldu aðila sem hafa að minnsta kosti 40% markaðshlutdeild í tilteknum búvörum til að safna og taka við afurðum frá frumframleiðendum. Félögum, hvort sem um er að ræða framleiðendafélög eða önnur, á að vera í sjálfsvald sett hverja þau eiga í viðskiptum við og eiga ekki að vera skuldbundin samkvæmt lögum til að kaupa afurðir af ákveðnum aðilum.

Ráðið telur að lagaskylda sem beinist að ákveðnum afurðastöðvum eða fram­leiðenda­félögum um að safna afurðum, þrátt fyrir að þau hafi náð ákveðinni markaðshlutdeild, sé óeðlileg og stangist á við grundvallarsjónarmið um frjáls viðskipti. Slík kvöð getur einnig skapað hvata hjá afurðastöðvum til að takmarka markaðshlutdeild sína við 40% gagngert í því skyni að sleppa við þessa þjónustu­skyldu og þannig haft neikvæð áhrif á stærðarhagkvæmni í greininni.

Niðurfelling tolla tryggir best hag neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld fremur til þess að beita sér fyrir frjálsari markaði með landbúnaðarvörur á Íslandi. Ef vilji er til þess að veita undanþágur frá samkeppnislögum með það fyrir augum að ná fram auknum þjóðhagslegum ábata í framleiðslu og vinnslu landbúnaðarafurða er nauðsynlegt að grípa til mótvægisaðgerða til að tryggja frjálsa samkeppni og þar með hag neytenda.

Til þess að tryggja samkeppni, aukið vöruúrval og að væntur ábati af breyttu fyrirkomulagi skiptist með sem jöfnustum hætti milli framleiðenda og neytenda ættu stjórnvöld að fella niður tolla á landbúnaðarafurðir. Verð á einstaka vörum gæti þannig lækkað um allt að 43% og vöruúrval myndi aukast.[1] Þannig mætti tryggja að breytingar á búvörulögum yrðu framleiðendum, verslunaraðilum og neytendum til hagsbóta.

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að hafa ofangreind sjónarmið til hliðsjónar við vinnslu frumvarpsins.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

Tilvísun

1 Úttekt Viðskiptaráðs á áhrifum tolla á vöruverð (2024). Slóð: https://vi.is/greining/tollfrjalsir-dagar

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024